Enski boltinn

Chelsea tapaði ó­vænt stigum á meðan Hlín tapaði fyrir Rauðu djöflunum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hlín í leik með Leicester.
Hlín í leik með Leicester. Leicester City/Getty Images

Englandsmeistarar Chelsea gerðu óvænt jafntefli við Brighton & Hove Albion í efstu deild kvenna í knattspyrnu. Þá vann Manchester United 2-0 sigur á Leicester City.

Chelsea hefur átt góðu gengi að fagna á leiktíðinni og var búist við að liðið myndi jafnvel vinna sannfærandi sigur þegar Sandy Baltimore kom meisturunum yfir á 16. mínútu.

Heimakonur í Brighton svöruðu hins vegar með tveimur mörkum. Marisa Olislagers jafnaði metin og Vicky Losada kom heimaliðinu yfir þegar lítið var eftir af fyrri hálfleik.

Lauren James jafnaði metin þegar klukkustund var liðin og reyndist það síðasta mark leiksins, lokatölur 2-2.

Á sama tíma vann Man United 2-0 sigur á Hlín Eiríksdóttur og stöllum í Leicester City. Melvine Malard kom Rauðu djöflunum yfir og Leah Galton kláraði dæmið í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Hlín lék fyrri hálfleikinn í liði Leicester.

Að loknum 15 leikjum er Chelsea með 41 stig á toppnum á meðan Man United er með 36 stig í 2. sæti.

Önnur úrslit

  • Aston Villa 0-2 Everton
  • Crystal Palace 0-1 Liverpool
  • Tottenham Hotspur 1-2 Manchester City



Fleiri fréttir

Sjá meira


×