Birgir Steinn, sem er 26 ára, fór og skoðaði sig um hjá Sävehof í síðasta mánuði og náði í framhaldi samkomulagi við félagið um samning. Fyrir er einn Íslendingur í liði Sävehof en það er Selfyssingurinn Tryggvi Þórisson.
Birgir Steinn hefur verið einn allra besti leikmaður Olís-deildarinnar síðustu ár. Hann kom til Aftureldingar frá Gróttu sumarið 2023 en er uppalinn Stjörnumaður.
Hann hefur átt flestar stoðsendingar allra í deildinni í vetur, eða að meðaltali fimm í leik, og er í fjórða sæti yfir flest skoruð mörk með að meðaltali sjö mörk í leik. Hann hefur því komið með beinum hætti að 12 mörkum að meðaltali í leik í vetur.
Afturelding er í 4. sæti Olís-deildarinnar, aðeins tveimur stigum frá toppnum nú þegar fjórar umferðir eru eftir fram að úrslitakeppninni sem Birgir Steinn mun taka fullan þátt í. Hann skoraði níu mörk þegar liðið féll út í undanúrslitum Powerade-bikarsins í síðustu viku með tapi gegn Fram.
„Við erum virkilega ánægð með að fá Birgi til Sävehof. Hann mun styrkja okkar lið bæði varnarlega og sóknarlega. Leikskilningur hans og hæfileikar bæði til að skora og leggja upp mörk munu nýtast okkur ákaflega vel,“ sagði Jonathan Stenbäcken, yfirmaður íþróttamála hjá Sävehof.