Fótbolti

Sjáðu vörslurnar hjá Alisson: „Fáir sem stugga við honum“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alisson ver eitt níu skota sinna gegn Paris Saint-Germain.
Alisson ver eitt níu skota sinna gegn Paris Saint-Germain. ap/Aurelien Morissard

Alisson átti frábæran leik í marki Liverpool þegar liðið sigraði Paris Saint-Germain, 0-1, í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í gær.

PSG sótti stíft í leiknum og átti alls 27 skot að marki Liverpool. Níu þeirra fóru á markið en Alisson varði þau öll.

Í Meistaradeildarmörkunum mærðu þeir Sigurbjörn Hreiðarsson og Ólafur Kristjánsson brasilíska markvörðinn.

„Hann hefur úrslitaáhrif í þessum leik. Aftur, ef þú tekur spilamennskuna hjá París, hún er góð, varnarleikurinn hjá Liverpool slapp en hann á vörslur sem ráða algjörlega úrslitum í þessum leik,“ sagði Ólafur.

Klippa: Meistaradeildarmörkin - Umræða um Alisson

Kjartan Atli Kjartansson spurði þá Sigurbjörn og Ólaf hvort Alisson væri besti markvörður heims í dag.

„Þegar Alisson er á þessum stað, eins og hann var í kvöld, eru fáir sem stugga við honum. Við sjáum hversu fljótur hann er út af línunni, hann er að taka þessi skot og hvernig hann ver þau. Mér finnst reyndar allar markvörslur góðar ef þú verð hann, ekki hvort þú verð hann rétt eða ekki. Staðsetningar og svo er hann fínn að spila boltanum út, langt, stutt. Alltaf rólegur,“ sagði Ólafur.

Sigurbjörn henti nafninu Emilanos Martínez, markvarðar Aston Villa og argentínska landsliðsins, fram.

„Martínez getur átt geggjaður vörslur en það er ofboðslega miklar tilfinningarsveiflur í honum og leikurinn fer eftir því,“ sagði Ólafur.

Vörslurnar hjá Alisson og umræðuna um hann má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×