Fótbolti

Boltastrákur hjálpaði mark­verði að verja víti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jonathan Klinsmann gaf boltastráknum markmannstreyjuna sína og strákurinn var mjög sáttur.
Jonathan Klinsmann gaf boltastráknum markmannstreyjuna sína og strákurinn var mjög sáttur. Getty/Simone Arveda/cesenafc

Jonathan Klinsmann, sonur hins eina sanna Jürgens, þakkaði boltastrák sérstaklega fyrir hjálpina í leik á dögunum.

Jonathan Klinsmann er ekki framherji eins og faðir sinn heldur markvörður. Hann spilar með ítalska B-deildarliðinu Cesena.

Klinsmann átti góðan leik um helgina þegar Cesena vann 2-0 heimasigur á US Salernitana 1919. Klinsmann hélt marki sínu hreinu en það reyndi á það á 83. mínútu leiksins þegar staðan var enn markalaus.

Salernitana fékk þá vítaspyrnu sem Alberto Cerri tók. Klinsmann skutlaði sér til hægri og varði vítið. Strax á eftir mátti sjá hann benda á boltastrák fyrir aftan markið og þakka honum fyrir.

Tólf ára boltastrákur sagði nefnilega Klinsmann að skutla sér til hægri sem og hann gerði með frábærum árangri.

Cesena skoraði fyrra markið sitt mínútu síðar og innsiglaði síðan sigurinn með marki í uppbótatíma. Gríðarlega mikilvægur sigur var því í höfn hjá Cesena í baráttu um sæti í umspili um laust sæti í Seríu A.

Hinn 27 ára gamli Klinsmann hefur fengið á sig 19 mörk í 18 leikjum og haldið fimm sinnum hreinu. Þetta var fyrta vítið sem hann varði á tímabilinu og í raun það fyrsta sem hann ver í leik síðan í desember 2017.

Klinsmann var líka mjög þakklátur og hann launaði stráknum aðstoðina með því að gefa honum markmannstreyju sína eftir leik eins og sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×