Körfubolti

Þjálfari Martins látinn fjúka

Sindri Sverrisson skrifar
Martin Hermannsson er ekki lengur með Israel Gonzalez sem þjálfara.
Martin Hermannsson er ekki lengur með Israel Gonzalez sem þjálfara. EPA/CLEMENS BILAN

Forráðamenn þýska körfuboltafélagsins Alba Berlín hafa nú brugðið á það ráð að reka spænska þjálfarann Israel González eftir dapurt gengi á þessari leiktíð.

Félagið greindi frá þessari ákvörðun sinni í dag. Pedro Calles, sem verið hefur aðstoðarþjálfari, tekur nú við sem aðalþjálfari og hann stýrði æfingu í morgun.

González varð aðalþjálfari Alba árið 2021, eftir að Martin Hermannsson fór til Valencia á Spáni, en hafði áður verið aðstoðarþjálfari liðsins.

Martin sneri aftur til Berlínar fyrir rúmu ári og Alba lék til úrslita um þýska meistaratitilinn við Bayern München en tapaði einvíginu, eftir að Martin meiddist og missti af því.

Í vetur hefur liðið hins vegar átt afar erfitt uppdráttar í þýsku deildinni og situr nú í 10. sæti af 17 liðum auk þess að vera í botnsæti EuroLeague.

Á sunnudaginn tapaði Alba Berlín 101-90 í framlengdum leik gegn Ulm sem er í 2. sæti þýsku deildarinnar. Alba hafði þó unnið sex af síðustu átta leikjum sínum fram að því og komið sér á rétta leið í sæti í úrslitakeppninni en það dugði ekki fyrir González.

Calles var ráðinn inn sem aðstoðarþjálfari í byrjun þessa árs, þegar vangaveltur höfðu verið uppi um framtíð González, og fær nú tækifæri til að leiða liðið til hæstu hæða á nýjan leik. Alba varð síðast þýskur meistari fyrir þremur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×