Fótbolti

Danskur fótboltamaður skiptir um lands­lið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stefan Gartenmann spilar væntanlega sinn fyrsta landsleik fyrir Sviss í komandi lansleikjaglugga.
Stefan Gartenmann spilar væntanlega sinn fyrsta landsleik fyrir Sviss í komandi lansleikjaglugga. AP/Robert Hegedus

Danski varnarmaðurinn Stefan Gartenmann vill ekki spila lengur fyrir danska landsliðið heldur ætlar hann nú hér eftir að spila fyrir svissneska landsliðið.

Gartenmann er 28 ára gamall og er þessa dagana að spila mjög vel fyrir ungverska félagið Ferencvaros. Danska ríkisútvarpið segir frá.

Gartenmann er fæddur og alinn upp í Hróarskeldu í Danmörku og hefur spilað fyrir unglingalandslið Danmörku.

Hann gat líka spilað fyrir Alpaþjóðina og var í dag valinn í svissneska landsliðshópinn fyrir leiki á móti Norður-Írlandi og Lúxemborg. FIFA hefur samþykkt breytinguna. Landsliðsþjálfarinn Murat Yakin vill nota hann í svissneska landsliðinu.

Daninn fór frá FC Roskilde til hollenska liðsins Heerenveen sem ungur leikmaður en hann hóf meistaraflokksferil sinn með danska liðinu Sönderjyske.

Hann lék með Sönderjyske í fimm ár en fór til FC Midtjylland árið 2022. Hann var lánaður þaðan til Aberdeen en var svo seldur til ungverska liðsins Ferencvaros í ágúst síðastliðnum.

Gartenmann hefur nú unnið sér sæti í svissneska landsliðinu sem er númer tuttugu á styrkleikalista FIFA en þess má geta að Danir eru í næsta sæti á eftir. Hann er því að fara í betra landslið samkvæmt mati Alþjóða knattspyrnusambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×