Sænska blaðið Aftonbladet segir að Ari sé nú þegar búinn að skrifa undir samning við Elfsborg sem gildi út leiktíðina 2029, að því gefnu að hann standist læknisskoðun en hann er væntanlegur til Borås á morgun.
Hjá Elfsborg hittir Ari fyrir annan Íslending því í vetur keypti félagið Júlíus Magnússon, fyrirliða Fredrikstad, og gerði hann að einum allra dýrasta leikmanni í sögu félagsins með því að greiða um eina milljón evra en upphæðin gæti hækkað í 1,5 milljón evra.
Eggert Aron Guðmundsson var hjá Elfsborg á síðustu leiktíð en er nú orðinn lærisveinn Freys Alexanderssonar hjá Brann í Noregi eftir að hafa verið seldur.
Ari fagnar 22 ára afmæli í dag. Hann er uppalinn hjá HK en fór 16 ára gamall til Bologna á Ítalíu. Víkingur keypti hann svo snemma árs 2022 og hefur Ari leikið 65 leiki með Víkingum í efstu deild og skorað í þeim 18 mörk.
Hann skoraði átta mörk í deildinni á síðustu leiktíð og átti sinn þátt í Evrópuævintýri Víkinga sem komust í umspil um sæti í 16-liða úrslitum Sambandsdeildar Evrópu.