Þorgerður segir það oft kalla á ákveðið hugrekki að þora að hlusta á innsæið sitt.
„Við þurfum að þora að treysta okkur sjálfum; að hafa sjálfstraustið til að sitja í sjálfum okkur vitandi það að það er ekkert sem við hugsum sem er endilega neitt vitlaust. Málið snýst frekar um að þora að tala við okkur sjálf, jafnvel skora okkur sjálf á hólm,“ segir Þorgerður og bætir við:
Innsæið hefur að minnsta kosti reynst mér vel í mörgum málum.
Í mörgum verkefnum í pólitíkinni og almennt í erfiðum verkefnum hef ég smátt og smátt lært betur að taka innsæið meira inn í breytuna.
Þannig hefur innsæið hjálpað mér í gegnum ákveðna skafla.“
En manstu eftir því að hafa ekki fylgt eftir innsæinu þínu?
„Já.“
Og hvað gerist þá?
„Þá tekur við tímabundið tímabil með langvarandi óþægindum,“ svarar Þorgerður og brosir.
UAK ráðstefnan 2025 verður haldin á laugardaginn kemur. Yfirskriftin að þessu sinni er „Innri áttavitinn; Leiðir liggja til allra átta.“ Í dag og á morgun ræðir Atvinnulífið við tvær forystukonur um innsæið og hvernig það hefur nýst þeim að þora að hlusta á sinn eiginn innri áttavita.
Hvað er þetta innsæi?
Það verður án efa margt um manninn á árlegu ráðstefnu UAK sem nú verður haldin í ráðstefnusal The Reykjavík Edition. Enda fjölbreyttur hópur flottra kvenna sem ætla að ræða um innsæið og hvernig það hefur nýst þeim í gegnum tíðina. Auk Þorgerðar má til dæmis nefna Ingunni Eiríksdóttur frumkvöðli, fyrirsætu og fjárfesti, Nínu Dögg Filippusdóttur leikkonu, handritahöfund og kvikmyndaframleiðanda, stofnendur Fortuna Invest þær Aníta Rut, Kristín Hildur og Rósa, Margrét Pála Ólafsdóttir höfundur Hjallastefnunnar, Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir forstjóri Varðar og margar fleiri, sjá hér.
En hvað er þetta innsæi eiginlega?
„Ég tengi innsæið svolítið uppeldinu því mamma og pabbi ólu okkur systurnar þannig upp að þora að treysta okkur sjálfum og þora að sitja í sjálfum okkur. Innsæið hefur því aldrei verið neitt tabú fyrir mér. Ég held að reynsla og þekking fléttist inn í innsæið okkar. Innsæið sé því samþætting af þeirri reynslu sem við öflum okkur í lífinu. Enda eflaust margt ólíkt með því hvað ég var að hugsa 15 ára miðað við í dag eða hvernig ég myndi nýta innsæið mitt í alls kyns verkefnum núna, aðstæðum eða samtölum.“
Það sem Þorgerður segir hjálpa mest við innsæið er að taka betri ákvarðanir.
„Í mínu pólitíska lífi og í prívat lífinu því ef við hlustum ekki á innsæið okkar erum við líkleg til að taka ekki jafn ígrundaðar ákvarðanir.“
Í dagsins amstri þurfi hins vegar að tryggja að við hlustum á innsæið.
„Við getum hugsað alla hluti fram og til baka en eigum ekki að vera feimin né smeyk við þennan innri áttavita. Því innsæið er vinur þinn og það að hlusta á innsæið getur skipt sköpum,“ segir Þorgerður.
Sjálfsefinn sé þó bardaginn sem flestir glími við.
„Síðast í gær fannst mér fullt af þungum hlutum vera í gangi og þegar svo er getum við farið að efast um okkur sjálf. Er ég að gera nóg? Þarf ég að gera meira?“
En þá er gott að gefa innsæinu smá svigrúm.
„Í gærkveldi fór ég í göngutúr með dóttur minni sem var æðislegt. Náði þá að setjast aðeins í sjálfa mig, vaknaði síðan í rosa stuði í morgun og leið allt öðruvísi. Enda kláraði ég fullt af hlutum á ríkisstjórnarfundinum í morgun,“ segir Þorgerður og hlær.

Styrkurinn sem felst í að hlusta
Það geta allir sagt frá mómentum þar sem þeir hugsa eftir á;
Oh… ég vissi það.
Ég vissi að ég hefði átt að gera þetta svona eða hinsegin…..
Þorgerður Katrín er þar engin undantekning.
„Ég man eftir mörgum dæmum um að hafa ekki hlustað á innsæið mitt. Og oft upplifað það eftir á hversu pirrandi og vont það er eftir á að hafa ekki gert það.“
Í kynningu um ráðstefnuna segir hins vegar:
Við viljum hvetja gesti til að staldra við, hlusta á innsæið
og skoða þau gildi sem móta stefnu þeirra í lífinu.
Þorgerður segir það ekki þurfa að vera flókið að heyra í innsæinu. Í hennar tilviki virki það oft fínt að fara út í göngutúr með hundinn. Eða einfaldlega að gefa sjálfri sér andrými eitt augnablik.
„Á þungum dögum geta komið augnablik þar sem ég sit á skrifstofunni minni og einfaldlega gef mér smá tíma til að horfa út um gluggann og yfir sundin og næ þá með því að segja við sjálfa mig: Róaðu þig nú aðeins. Ekki alltaf vera með svipuna á lofti við sjálfa þig,“ segir Þorgerður og bætir við:
,,Og með því að gera þetta eitt augnablik kemst ég oftast að því að staðan er ekkert svo slæm. Hún er meira að segja bara mjög fín því ég er að leggja mig fram og er að gera mikið meira en nóg.“
Þorgerður segir konur samt þurfa að passa sig sérstaklega.
„Við förum öll í gegnum tímabil í lífinu þar sem við erum að reyna að hlaupa hraðar og erum með marga bolta á lofti. Sjálf byrjaði ég til dæmis ung í pólitíkinni og þekki það að vera ófrísk í pólitík eða í pólitík með heimili og þrjú börn líka,“ segir Þorgerður en bætir við:
„En konur frekar en karlar þjást af ákveðnu samviskubiti; þar sem við förum að velta fyrir okkur hlutum eins og hvort við séum ekki að verja nógu miklum tíma með börnunum okkar eða að gera nógu mikið með þeim eða fyrir þau.“
Þannig sé konum oft tamara að vera jafnvel enn harðari við sjálfan sig en margur karlpeningurinn.
„Bara síðast um daginn var góð vinkona mín að segja mér að hætta að vera alltaf svona hörð við sjálfa mig.“
En hvað geta konur þá gert til að tryggja að þær gleymi ekki að hlusta á innsæið sitt?
„Ég myndi byrja á því að segja: Ýtið helvítis samviskubitinu út af borðinu.“

Kvenlægu gildin svo sterk
Þorgerður segir margt hafa verið öðruvísi þegar hún byrjaði í pólitík.
Það var ekki verið að tala um kvenlæg gildi eða innsæi þegar ég var að byrja. Því ég kem af kynslóðinni sem fékk frekar að heyra:
Haltu kjafti og vertu dugleg!“
Fyrir ungar konur í karlægum heimi var algengasta aðferðin sú að konur reyndu að gera hlutina eins og karlarnir.
„Ég hélt því að maður þyrfti alltaf að vera að olnbogast einhvern veginn áfram. Að vera alltaf í slag eða almennt að gera hlutina eins og strákarnir. Sem ég ofmat og lærði síðar að er ekki málið. Ekki að karlmenn séu ekki oft að gera hlutina á góðan hátt. En kvenlægu elementin okkar eru mildari og ef ég hefði oftar leyft þeim að njóta sín, hefði ég verið fyrr að átta mig á að það þarf ekkert alltaf að vera í einhverjum slagsmálum.“
Sem dæmi nefnir Þorgerður síðustu kosningar. Sem hún telur hafa dregið vel fram hin kvenlægu mildari gildi.
„Mér fannst þetta langskemmtilegasta kosningabaráttan sem ég hef tekið þátt í. Og hvers vegna ætli það hafi verið? Jú, vegna þess að hún var svo jákvæð. Og þegar hlutirnir eru jákvæðir þá eru þeir skemmtilegir. Við tókum að minnsta kosti ákvörðun um það snemma að tala ekki neikvætt um neinn og ég held að það hafi tekist að minnsta kosti 90%.“
Horfandi í baksýnisspegilinn segir Þorgerður.
„Ég hefði leyft þessum kvenlægu gildum sem við konur búum yfir að njóta sín meiri. Því þau nýtast svo vel. En þá skiptir líka miklu máli að við séum duglegar að hlusta á innri áttavitann okkar, því hann tryggir betur að ekki sé hægt að hræða okkur til þöggunar.“
En kvenlægu gildin og þau mildari skipta líka máli í stóru myndinni.
„Ekki síst nú þegar við sjáum hvernig heimsmálin eru að þróast. Þar sem allt snýst um varnir og öryggi Til að verja friðinn og frelsið. Þar skipta þessi gildi sannarlega máli. Við hérna á Íslandi erum rík af frábærum konum sem eru sérfræðingar í þeim málaflokki. Það er dýrmætt því raddir kvenna eru gríðarlega mikilvægar á þessu sviði sem öðrum,“ segir Þorgerður og bætir við að á tímum sem þessum sé mikilvægara en nokkru sinni að halda á lofti jafnréttismálum. Þar erum við Íslendingar á heimavelli.