Skoðun

Mis­skilningur frú Sæ­land

Kristinn Karl Brynjarsson skrifar

Inga Sæland félags og húsnæðismálaráðherra, sagði er hún var spurð í óundirbúnum fyrirspurnum í þinginu 20. mars , um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna ESB- umsóknar, að það gætti skringilegs misskilnings að halda að þjóðaratkvæðagreiðsla um umsókn, hefði eitthvað með inngöngu í Evrópusambandið að gera.

Nú er það svo, hvort sem að sótt er um inngöngu í Evrópusambandið eða eitthvað annað, að varla sé það gert nema áhugi sé fyrir inngöngu. Eftir að umsóknaraðilinn eða umsóknarríkið hefur kynnt sér kosti og galla inngöngu. Það er ekki verið að sækja um eða kaupa aðgöngumiða í skoðunarferð um reglu og lagafargan Evrópusambandsins. Heldur er sótt um, þegar ríki telja hag sýnum betur borgið þar inni, en fyrir utan.

Annar misskilningur frú Sæland, er svo auðvitað sá, að þjóðin sé að fara að ákveða hvort sótt verði um eða ekki. Inga og hinir sextíuogtveir sem kjörnir voru á þing í nóvember síðastliðnum, voru einmitt kjörnir til þess að taka slíkar ákvarðanir og þá samkvæmt eigin sannfæringu. En í 48. grein stjórnarskrárinnar stendur orðrétt: “Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.”

Að óbreyttri stjórnarskrá, leiðir það því af sér, að þjóðaratkvæðið getur eingöngu snúist um, fylgi stjórnarmeiri þeirri stjórnarskrá er hann hefur heitið drengskap sínum við, ákvörðun sem þingið hefur tekið. En ekki um hvort að þingið eigi að taka einhverja ákvörðun. Eins verður það svo auðvitað, gangi málið svo langt að úr verði samningur um aðild Íslands að ESB.

Það er því alveg ljóst, að ákvörðun um umsókn eða inngöngu í ESB er og verður hjá Alþingi og engum öðrum. Þingið getur hins vegar ákveðið, að spyrja þjóðina um afstöðu til áður tekinna ákvarðana og ákveðið svo að því loknu, hvort farið skuli að ákvörðun þjóðarinnar eða ekki.

Höfundur er formaður Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Sjá meira


×