Fótbolti

Ærðust og fögnuðu með stein­hissa Henry

Sindri Sverrisson skrifar
Thierry Henry vissi ekki hvaðan á hann stóð veðrið þegar leikmenn Panama þustu að honum.
Thierry Henry vissi ekki hvaðan á hann stóð veðrið þegar leikmenn Panama þustu að honum. Getty/Shaun Clark

Panama-menn gjörsamlega ærðust af fögnuði og hópuðust einhverra hluta vegna að frönsku goðsögninni Thierry Henry þegar þeir unnu hádramatískan sigur gegn Bandaríkjunum í gærkvöld.

Bandaríkin hafa unnið Þjóðadeild CONCACAF síðustu þrjú skipti en þeir töpuðu 1-0 í undanúrslitum keppninnar í Kaliforníu í gær.

Það stefndi allt í framlengingu en Cecilio Waterman náði að skora sigurmark Panama á fjórðu mínútu uppbótartíma og eins og sjá má hér að neðan tóku við gríðarleg fagnaðarlæti.

Waterman reif sig strax úr treyjunni og hljóp út fyrir völlinn, beint til Thierry Henry sem var sérfræðingur í sjónvarpsútsendingu frá leiknum. Hann sást kalla eitthvað á þessa fyrrverandi stjörnu Arsenal og Barcelona sem gat ekki annað brosað. 

„Þú ert átrúnaðargoðið mitt! Þú ert átrúnaðargoðið mitt!“ ku Waterman hafa kallað.

Félagar Waterman bættust svo við og allur hópurinn fagnaði með furðu lostinn Henry í miðjum hringnum.

Panama mætir nú Mexíkó í úrslitaleik keppninnar og ljóst að nýr meistari verður krýndur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×