Handbolti

Valskonur taka tveggja marka tap með sér heim á Hlíðar­enda

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Leikurinn fór hægt af stað en Thea Imani skoraði fyrsta mark leiksins fyrir Val eftir þrjár mínútur.
Leikurinn fór hægt af stað en Thea Imani skoraði fyrsta mark leiksins fyrir Val eftir þrjár mínútur. vísir

Valskonur taka tveggja marka tap með sér heim í seinni leikinn gegn slóvakíska liðinu MSK Iuventa í undanúrslitum Evrópubikarsins. 25-23 urðu lokatölur en Valur var sex mörkum undir í hálfleik.

Leikurinn fór hægt af stað en Thea Imani skoraði fyrsta mark leiksins fyrir Val eftir þrjár mínútur. Eftir það átti heimaliðið tvo góða kafla, en Valur aðeins einn og staðan í hálfleik 14-8 Iuventa í vil.

Sex mörkum undir í hálfleik var útlitið svart fyrir Val en liðið saxaði virkilega vel á forskotið strax í upphafi seinni hálfleiks og var búið að minnka muninn í tvö mörk eftir aðeins átta mínútur.

Eftir það hélt heimaliðið hins vegar tveggja marka forystunni það sem eftir lifði leiks, eða svo gott sem. Valskonur náðu að jafna á einum tímapunkti en voru alltaf eftir á.

Eftir slakan fyrri hálfleik verður það þó að teljast ágætt að taka aðeins með sér tveggja marka tap heim í seinni leikinn.

Þórey Anna Ásgeirsdóttir var markahæst í leiknum með sjö mörk, Lovísa Thompson fylgdi henni eftir með sex mörk.

Seinni leikur liðanna fer fram á Hlíðarenda næsta sunnudag klukkan hálf sex.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×