Erlent

Erind­reki Trump bjart­sýnn fyrir friðar­við­ræður Rússa og Úkraínu­manna

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Magnús Jochum Pálsson skrifa
Steve Witkoff, erindreki Bandaríkjanna í Miðausturlöndum, mun koma að friðarviðræðum milli Úkraínu og Rússlands, Hann segist bjartsýnn á að varanlegur friður náist.
Steve Witkoff, erindreki Bandaríkjanna í Miðausturlöndum, mun koma að friðarviðræðum milli Úkraínu og Rússlands, Hann segist bjartsýnn á að varanlegur friður náist. Getty

Minnst þrír voru drepnir og tíu særðust þegar Rússar gerðu drónaárás á Kænugarð í nótt. Meðal hinna látnu er fimm ára barn. Úkraínumenn munu á morgun funda um frið með Rússum í Sádí-Arabíu gegnum sendinefnd Bandaríkjanna.

Íbúar í Kænugarði sem fréttastofa AP ræddi við í dag höfðu litla trú á friðarviðræðum við Rússa. Sendinefnd Úkraínu fundaði í dag með Bandaríkjunum í Sádi-Arabíu. 

Á morgun munu Rússar bætast við og funda um frið, en verða í öðru herbergi en Úkraínumenn, og bandaríska sendinefndin mun ganga á milli. 

Steve Witkoff, sérstakur erindreki Bandaríkjaforseta, sagðist í samtali við Fox News hafa fulla trú á því að Vladimír Pútín Rússlandsforseti vilji frið.

„Ég held að hann [Pútín] vilji frið. Forsetinn átti tvö mjög árangursrík símtöl í vikunni, eða í síðustu viku öllu heldur, annað við Selenskí og hitt við Pútín. Ég hlustaði á þau bæði,“ sagði Steve við Fox. „Bæði samtölin snerust um varanlegan frið. Málum miðaði vel áfram í síðustu viku.“

Witkoff sagði stöðuna allt aðra en fyrir 80 árum og sagðist hann trúa orði Pútín.

„Ég hef sagt það að ég geti ekki séð að hann vilji taka alla Evrópu. Þetta er allt önnur staða en var í heimsstyrjöldinni síðari. Í heimsstyrjöldinni var ekkert NATO. Það eru ríki sem eru vopnuð þarna. Ég trúi því sem hann segir hvað þetta varðar. Og ég held að Evrópubúar séu farnir að trúa því líka,“ sagði hann einnig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×