Skoðun

Kjörnir full­trúar og buxna­hysjanir!

Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar

Vissulega hefur málið um Ásthildi Lóu, fyrrverandi barna- og menntamálaráðherra, skapað mikla umræðu. Þessi umræða vekur spurningar um áhrif pólitísks óstöðugleika á samfélagið, einstaklinga, starfsemi félagasamtaka og annarra sem vinna að mikilvægum samfélagsmálum.

Pólitískur óstöðugleiki getur leitt til þess að mikilvæg mál, svo sem heilbrigðiskerfið, fangelsismálin, vegakerfið, og geðheilsumál, verða sett til hliðar vegna stjórnmálalegra deilna. Þetta getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir vinnu og framgang mikilvægra málaflokka.

Það er grundvallaratriði að stjórnmálamenn og þingmenn einbeiti sér að því að leysa raunveruleg vandamál í samfélaginu fremur en að eyða tíma í pólitískt tjáskipti og málþóf sem engu skilar.

Félagsamtök og ýmis samfélagsverkefni eru háð stöðugleika og samvinnu við stjórnvöld til að ná fram markmiðum sínum og bæta lífsgæði fólks. Pólitískur óstöðugleiki og endalaus deilur geta dregið úr getu þessara samtaka til að starfa áhrifaríkt. Það bitnar á borgurum þessa lands og samfélaginu í heild.

Því er mikilvægt fyrir alla hlutaðeigandi að muna að ábyrgðin liggur hjá öllum, ekki aðeins stjórnvöldum, heldur einnig stjórnarandstöðu og öllum þeim sem hafa áhrif á opinbera umræðu, að vinna saman að lausnum sem fela í sér uppbyggilega og árangursríka nálgun við lausn samfélagslegra vandamála.

Ég hvet allt stjórnmálafólk að vinna að breytingum á kerfinu þannig að bæði Alþingi og Sveitarstjórnir séu að vinna að því að lagfæra og betra samfélagið í heild og líf borgara þess í stað þess að eyða öllum þessum tíma í að klekkja á næsta manni þrátt fyrir að hafa ekkert púður í það.

Það hefur verið vandræðalegt að horfa á umræðuna undanfarna daga og hversu margt hefur verið reynt til að klekkja á fólki. Hysjið upp um ykkur buxurnar og farið að vinna!

Höfundur er formaður Afstöðu. 




Skoðun

Sjá meira


×