Skoðun

Opið bréf til borgar­stjórnar: For­eldrar kalla eftir á­kvörðun á fimmtu­daginn!

Foreldrar barna í leikskólanum Öskju og Barnaskólanum í Reykjavík skrifar

Kæra borgarstjórn,

Í leik- og grunnskólum Hjallastefnunnar í Reykjavík hefur á undanförnum árum vaxið og dafnað einstakt samfélag sem borgin getur verið stolt af. Samfélag sem samanstendur af börnum sem blómstra á eigin forsendum, metnaðarfullum og kærleiksríkum kennurum, og einstaklega ánægðum foreldrum. Þetta samfélag státar af einstaklega faglegu skólastarfi og skapar framúrskarandi starfsumhverfi fyrir bæði smáa meðlimi og stóra.

Framtíð þessa fallega skólasamfélags er nú með öllu óljós og það af ástæðu sem er jafn einföld og hún er óskiljanleg: Þrátt fyrir ótal jákvæðar yfirlýsingar hefur Reykjavíkurborg enn ekki úthlutað skólanum lóð þar sem reisa má framtíðarheimili Hjallastefnunnar í Reykjavík.

Góðu fréttirnar eru þær að úr þessu gæti verið auðvelt að leysa. Fyrir borgarstjórn liggur erindi um einmitt þetta; tækifærið til að tryggja Hjallastefnunni í Reykjavík framtíðarheimili. Þetta mál hefur verið vel og ítarlega unnið undanfarin ár af borginni og Hjallastefnunni og rætt í þaula.

Eins og þið þekkið sjálf best þá hefur árum saman varað krísa í leikskólamálum Reykjavíkurborgar sem erfitt hefur reynst að leysa. Það er því með öllu óskiljanlegt að þegar tækifæri gefst til að tryggja framtíð þessa fallega skólasamfélags sé það ekki gripið af festu og röggsemi.

Við, foreldrar barna í Hjallastefnunni í Reykjavík, viljum þess vegna minna ykkur á að missa ekki sjónar á því sem málið snýst um; raunverulegu tækifæri ykkar til að styðja við þau rúmlega 400 reykvísku börn sem sækja skólana sem um ræðir. Þessi börn eiga meira skilið en skammtímahúsnæði og loftkennd loforð um að bætt verði úr málum fljótlega.

Að lokum er ekki úr vegi að rifja upp fyrir hvað Hjallastefnan stendur. Það er best skýrt á þremur grunnstoðum starfsins; jafnrétti, sköpun og lýðræði. Í Hjallastefnunni er fjölbreytileikanum fagnað og þar er alltaf starfað með kærleika að leiðarljósi.

Þetta eru leiðarljós sem ekkert okkar vill tapa, og það allra síst á þeim tímum sem við nú lifum.

Það er engin ástæða til að draga ákvarðanatöku á langinn, hver dagur skiptir máli. Við skorum á ykkur, borgarstjórn Reykjavíkur, að tryggja með ákvörðun á fundi næstkomandi fimmtudag áframhaldandi starfsemi leik- og grunnskóla með sérstöðu sem er okkar stolt og ykkar.

Með kærleikskveðju,

Höfundar eru foreldrar barna í leikskólanum Öskju og Barnaskólanum í Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

Lestu Gaza

Móheiður Hlíf Geirlaugsdóttir skrifar

Sjá meira


×