Sport

Ætla að láta frjálsíþróttakonur gangast undir kynjapróf

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sebastian Coe hefur verið forseti Alþjóða frjálsíþróttasambandsins síðan 2015.
Sebastian Coe hefur verið forseti Alþjóða frjálsíþróttasambandsins síðan 2015. getty/Fabrice Coffrini

Alþjóða frjálsíþróttasambandið ætlar að taka upp próf þar sem konur þurfa að sanna kyn sitt í til að fá að keppa í kvennaflokki. Sebastian Coe, forseti sambandsins, greindi frá þessu í gær.

Ekki liggur enn fyrir hvenær íþróttakonur verði skyldugar til að taka kynjaprófið en Coe segir að markmiðið með því sé að vernda heilindi íþróttarinnar og verja kvennaflokkinn. Næsta stóra frjálsíþróttamótið er HM í Japan í september.

Kynjapróf í íþróttum hafa verið mikið í umræðunni upp á síðkastið, meðal annars á Ólympíuleikunum í París. Þar var mikið rætt og ritað um hvort hnefaleikakonurnar Imane Khelif og Lin Yu-ting ættu að fá að keppa í kvennaflokki.

Samkvæmt fulltrúum frjálsíþróttasambandsins er markmið prófanna að finna SRY genið. SRY er að finna á Y-litningum og er sinnir lykilhlutverki varðandi dæmigerðan kynþroska karla.

Sýni verða tekin úr munni íþróttakvenna og aðeins þarf að gangast einu sinni undir þetta próf.

Coe telur að þessar aðgerðir njóti stuðnings, annars hefði hann aldrei farið af stað með þær.

„Við munum verja kvennaflokkinn með kjafti og klóm og gera allt sem þarf til þess,“ sagði Coe.

Hann bauð sig fram til forseta Alþjóða ólympíunefndarinnar en laut í lægra haldi fyrir Kristy Coventry.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×