„Ég vinn á Landspítalanum á hjarta, lungna, nýrna og augnadeild og síðan hef ég líka verið á göngudeild augnsjúkdóma þannig að það er nóg að gera,“ segir Viktor í samtali við Sindra.
„Ég byrjaði sautján ára á hjúkrunarheimilinu heima á Seyðisfirði og elskaði það. Ég prófaði að vinna í frystihúsinu heima og ég entist í viku þar. En að vinna á hjúkrunarheimilinu var gefandi og skemmtilegt og því átti hjúkrun við mig. Þegar fólk lítur á mig dettur það ekki í hug hjúkrunarfræðingur, utan að landi og því kem ég fólki yfirleitt á óvart.“
Sindri spyr Viktor hvernig viðbrögð hann fær frá fólki inn á spítalanum?
„Útlitið á ekki að skipta öllu máli. Ferilskrá mín talar bara sínu máli og sem betur fer sá yfirmaðurinn minn það á sínum tíma. Það var því ekkert í fyrirstöðu að ráða mig.“
En þá fer umræðan yfir í lýtalækningar.
„Ég veit ekki nákvæmlega hvar þetta byrjar, því þetta var ekki alið upp í mér. Þetta var bara alltaf í höfðinu á mér og bara áhugi fyrir þessu. Ég hef í raun ekki svarið við því hvaðan þetta kemur. Það fyrsta var fyllingarefni í varir, um leið og ég fékk sjálfræðisaldur. Svo var það nefaðgerð, fyllingarefni í kinnbein, kjálkalínu og síðan stuttu seinna byrjar maður í bótox-inu líka,“ segir Viktor en hér að neðan má sjá innslagið í heild sinni.