Handbolti

Al­dís Ásta og fé­lagar í lykil­stöðu eftir stór­sigur

Siggeir Ævarsson skrifar
Aldís Ásta fór mikinn í kvöld.
Aldís Ásta fór mikinn í kvöld. Skara

Aldís Ásta Heimisdóttir og félagar hennar í Skara eru komnar í lykilstöðu gegn Kristianstad í fyrstu umferð sænsku úrslitakeppninnar í handbolta eftir þrettán marka stórsigur í kvöld. Lokatölur leiksins 24-37 Skara í vil.

Aldís Ásta, sem var markahæst á vellinum í síðasta leik, lét sér nægja að skora fjögur mörk að þessu sinni en lagði jafnframt upp fimm mörk. Markahæst í kvöld var samherji hennar Melanie Felber sem skoraði níu mörk.

Íslendingarnir í liði Kristianstad, þær Berta Rut Harðardóttir og Jóhanna Margrét Sigurðardóttir skoruðu samanlagt fjögur mörk, Jóhann þrjú og Berta Rut eitt.

Leikið var á heimavelli Kristianstad í kvöld en gestirnir frá Skara höfðu mikla yfirburði allan leikinn og skoruðu sjö fyrstu mörk hans án svars frá heimakonum. Skara leiddi með níu mörkum í hálfleik og sigurinn í raun aldrei í hættu eftir þessa orrahríð í byrjun.

Staðan í einvíginu er því orðin 2-0 Skara í vil og geta deildarmeistararnir því tryggt sér sæti í 4-liða úrslitum í næsta leik sem fram fer á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×