Frá þessu greina norskir miðlar í dag en aðalfundur félagsins er haldinn í kvöld.
Hjá Kolstad eru Sigvaldi Björn Guðjónsson og Sveinn Jóhannsson, bræðurnir Benedikt og Arnór Óskarssynir, og markvörðurinn Sigurjón Guðmundsson. Sveinn er þó á förum til Frakklands í sumar.
Kolstad hefur einnig haft í sínum hópi enn stærri nöfn og þar ber helstan að nefna Sander Sagosen sem félagið neyddist til að láta fara til Álaborgar strax í febrúar.
Það kemur ekki á óvart í ljósi þess að félagið tapaði 5,9 milljónum norskra króna á árinu 2024, eða jafnvirði um 75 milljóna íslenskra króna.

„Það er ekki gaman að vera með svona stóran mínus. Það er það ekki,“ segir Jostein Sivertsen, framkvæmdastjóri hjá Kolstad.
Þetta er þriðja árið í röð sem að Kolstad er rekið með tapi en árið 2023 tapaði félagið 1,7 milljón norskra króna og árið þar áður 800.000 norskum krónum. Á þremur árum hefur félagið því tapað samtals 8,4 milljónum norskra króna sem samsvarar í dag um 106 milljónum íslenskra króna.
Adresseavisen fjallar um málið og segir að stærsta afleiðingin af þessum tapsrekstri sé sú að Kolstad geti núna ekki lengur sótt topplandsliðsmenn. Ekki fyrr en takist að rétta rekstur félagsins af.
„Við erum mjög meðvituð um að ná sjálfbærum og heilbrigðum rekstri. Það er krefjandi að vera í þessu efnahagsástandi sem verið hefur síðustu árin, og þá verðum við að setja fjármálin í forgang næstu árin,“ sagði Sivertsen.