Variety fjallar um framhaldsmyndina tilvonandi sem er ekki enn komin með nafn en er komin í framleiðslu hjá Netflix.
Fréttirnar eru merkilegar fyrir nokkrar sakir. Í fyrsta lagi þykir fregn að jafnstórt nafn og Fincher leikstjóri skuli leikstýra framhaldi á mynd annars stórs leikstjóra. Í öðru lagi þykir ansi óvenjulegt að myndin skuli færast frá kvikmyndastúdíóinu Sony yfir til streymisveitunnar.
Sony gaf út Once Upon a Time in Hollywood árið 2019 en Tarantino samdi þannig að hann fengi eignarhald á kvikmyndaréttinum að nokrum árum liðnum. Af fréttunum að dæma virðist greinilegt að hann hefur endurheimt réttindin frá stúdíóinu.
Kvikmyndagagnrýnandi hjá klámblaði
Myndin kemur til í kjölfar þess að Tarantino hætti við að gera sína tíundu og síðustu mynd, Kvikmyndagagnrýnandann.
Leikstjórinn var búinn að skrifa handrit myndarinnar sem átti að fjalla um kvikmyndagagnrýnanda hjá klámtímariti á áttunda áratugnum. Brad Pitt átti að leika gagnrýnandann og hafði sá orðrómur gengið að þar væri fyrrnefndur Booth á ferðinni.
Nú er ljóst að Pitt mun snúa aftur sem áhættuleikarinn Booth, hlutverk sem hann fékk Óskarsverðlaun fyrir 2019. Myndin mun einnig sameina krafta þeirra Pitt og Fincher á ný en þeir hafa áður gert myndirnar Se7en, Fight Club og The Curious Case of Benjamin Button saman.
Langt er um liðið síðan Tarantino leikstýrði ekki eigin handriti en hann hefur gert það þrisvar: þegar Tony Scott leikstýrði True Romance árið 1993, Oliver Stone leikstýrði Natural Born Killers árið 1994 og þegar Robert Rodriguez leikstýrði From Dusk till Dawn árið 1993.