Golf

Fylgstu með þessum tíu á Masters

Valur Páll Eiríksson skrifar
Fylgist með þessum á Masters.
Fylgist með þessum á Masters. Samsett/Vísir/Hjalti

Masters-mótið í golfi hófst í dag er keppt verður um hinn fræga græna jakka. Vísir hefur tekið saman tíu af 95 kylfingum mótsins sem vert er að fylgjast vel með.

Bein útsending frá Masters-mótinu hefst klukkan 19:00 í kvöld. Sýnt verður frá mótinu daglega á Stöð 2 Sport 4.

Allir kylfingarnir sem taka þátt eiga sína sögu. Bernhard Langer verður elstur, 67 ára, og tekur þátt á sínu síðasta móti í ár, 40 árum eftir að hann vann mótið fyrst. Fjallað hefur verið Angel Cabrera sem missti af þónokkrum Masters-mótum sökum þess að hann sat í fangelsi, og er ný búinn að fagna sigri á PGA-móti.

Fylgjast má þó sérlega vel með þessum tíu kylfingum á Masters:

10. Jordan Spieth

Jordan Spieth klæddi sig í græna jakkann fyrir áratug.Vísir/Getty

Í ár eru tíu ár frá því að Spieth fagnaði sigri á Masters, árið 2015. Sá Spieth er ekki sá sami og við sjáum á brautinni í ár. Hann er áratug eldri, gengið misvel síðustu ár og á til að vera sveiflukenndur í spilamennsku. Hann hefur þó verið tvisvar á meðal þeirra fjögurra efstu á síðustu fjórum Masters-mótum.  Áhugavert verður að sjá hvaða Spieth mætir til leiks í ár.

9. Ludvig Åberg

Ludvig Åberg gat leikið með bros á vör á Masters-mótinu í fyrra.Getty/Maddie Meyer

Sænski stuðboltinn sló í gegn í fyrra og lenti í öðru sæti í frumraun sinni á Augusta-vellinum. Það var jafnframt fyrsta risamótið á ferli hans. Hann hefur hins vegar verið í brasi, komst ekki í gegnum niðurskurð síðustu tvær vikur. Það er spurning hvort hann haldi slíku áfram eða geti byggt á árangurinn á Masters í fyrra.

8. Phil Mickelson

Alltaf klár.Warren Little/Getty Images

Aldrei sofa á Lefty. Mickelson hefur unnið mótið þrisvar og var annar á mótinu fyrir tveimur árum. Skiptar skoðanir eru á kauða en það fylgjast allir með Phil þegar hann mætir á völlinn.

7. Brooks Koepka

Kaldhæðni örlaganna hagaði því þannig að LIV-kylfingurinn Brooks Koepka vann PGA-meistaramótið rétt rúmum tveimur vikum áður en tilkynnt var um samruna bakhjarla LIV og PGA-mótaraðarinnar fyrir tveimur árum síðan.Vísir/Getty

Lenti í öðru sæti fyrir tveimur árum og vann svo PGA-meistaramótið sama ár. Er í mismiklu stuði á LIV-túrnum og stígur yfirleitt upp á stóra sviðinu. Komst í gegnum niðurskurð á öllum fjórum risamótum í fyrra en gekk verr þegar í helgina var komið. Getur hæglega gert vel.

6. Xander Schauffele

Vann Opna breska í fyrra.EPA-EFE/ROBERT PERRY

Er klár í slaginn og getur klárlega unnið að eigin sögn. Aðrir eru ekki eins vissir um meiðslastöðu kappans. Vann bæði PGA-meistaramótið og Opna breska í fyrra en spurningin er hvort við fáum meistara til leiks eða ryðgaðan meiðslapésa.

5. Jon Rahm

Hann var í brasi á risamótunum í fyrra, blessaður.Matthew Maxey/Icon Sportswire via Getty Images

Spilar glimrandi vel á LIV. En gekk agalega á risamótunum í fyrra. Átti titil að verja á Masters og lenti í 45. sæti. Komst ekki í gegnum niðurskurðinn á PGA-meistaramótinu og dró sig úr keppni á US Open.

Mætir Rahmbo í hefndarhug?

4. Viktor Hovland

Viktor Hovland er áhugaverður fír.Vísir/Getty

Norsarinn knái. Skemmtilegur kylfingur og áhugaverður náungi, þó hann sé norskur. Vann Valspar-mótið nýlega þrátt fyrir að hafa sagt skömmu áður að honum fyndist hann hafa týnt sveiflunni. Ætlaði raunar ekkert að taka þátt, en vann svo bara.

Finnur hann sveifluna um helgina?

3. Scottie Scheffler

Ólympíumeistarinn mætir til leiks.Brendan Moran/Sportsfile via Getty Images

Var einstaklega stöðugur og vann ítrekað mót á síðasta ári. Hann hefur þó ekki unnið á þessu ári, ennþá. Smá ryðgaður en þrátt fyrir það aldrei verið fyrir utan topp 25 á árinu. Og var í öðru sæti á Houston Open á dögunum. Scheffler er efstur á heimslistanum, á titil að verja og skyldi engan undra að fyrsti sigur ársins kæmi um helgina.

2. Bryson DeChambeau

DeChambeau á til að stíga upp þegar á stóra sviðið er komið.Jared C. Tilton/Getty Images

YouTube-kallinn. Öflugur á risamótunum í fyrra. Sjötta sæti á Masters, annað sæti á PGA og vann svo US Open. Misgóður á LIV en alls ekkert ólíklegt að hann stígi upp á stóra sviðinu, rétt eins og fyrrum erkióvinur hans Koepka.

1. Rory McIlroy

Jæja Rory, hvenær tekst alslemman?Ken Murray/Icon Sportswire via Getty Images

Kemur sama gamla romsan. McIlroy hefur ekki unnið risamót í áratug. En hann hefur unnið allt annað á meðan. Masters er eini risatitillinn sem hann á eftir til að ná í blessaða alslemmuna.

Er komið að því?

Hann hefur í það minnsta aldrei verið jafn ferskur að eigin sögn.

Sýnt verður beint frá Masters-mótinu á Stöð 2 Sport 4 klukkan 19:00 í kvöld og annað kvöld. Mótinu verður þá enn betur fylgt eftir um helgina.


Tengdar fréttir

„Ég get algjörlega unnið Masters-mótið“

Xander Schauffele segist klár í slaginn fyrir komandi Masters-mót í golfi sem fram fer um helgina. Eftir frábært síðasta ár hefur hann átt í meiðslavandræðum á nýju ári.

Skítaveður og æfingum frestað á Augusta

Æfingum kylfinga fyrir komandi Masters-mót á Augusta National-vellinum í Georgíu-fylki hefur verið frestað vegna þrumuveðurs. Búast má við slæmu veðri í allan dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×