Enski boltinn

Amorim í­hugar að henda Onana á bekkinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
André Onana átti sök á báðum mörkunum sem Manchester United fékk á sig gegn Lyon á fimmtudaginn.
André Onana átti sök á báðum mörkunum sem Manchester United fékk á sig gegn Lyon á fimmtudaginn. getty/Michael Steele

Knattspyrnustjóri Manchester United, Ruben Amorim, íhugar að setja André Onana, markvörð liðsins, á bekkinn fyrir leikinn gegn Newcastle United í ensku úrvalsdeildinni á morgun.

Onana var mikið í umræðunni fyrir og eftir leik United gegn Lyon í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar. 

Í aðdraganda leiksins sagði hann að United væri með mun sterkara lið en Lyon. Það fór illa í gamla United-manninn hjá Lyon, Nemanja Matic, sem sagði að Onana ætti að hafa sig hægan, enda væri hann einn slakasti markvörður í sögu United.

Onana gerði lítið til að afsanna þessi orð Matic en hann átti sök á báðum mörkum Lyon í leiknum á fimmtudaginn. Hann endaði með 2-2 jafntefli. Liðin mætast öðru sinni á Old Trafford næsta fimmtudag.

Daily Mail greinir frá því að Amorim muni gera talsverðar breytingar á byrjunarliði United fyrir leikinn gegn Newcastle á morgun. Meðal þeirra eru að Altay Bayındır gæti staðið á milli stanganna í stað Onanas.

Amorim kom Onana til varnar eftir leikinn í Lyon á fimmtudaginn en hann hefur eflaust ekki endalausa þolinmæði fyrir ítrekuðum mistökum kamerúnska markvarðarins.

Onana hefur átt afar misjöfnu gengi að fagna með United síðan félagið keypti hann frá Inter sumarið 2023.

United er í 13. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 38 stig eftir 31 leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×