Frá þessu greinir norski miðillinn E24 og hefur eftir utanríkisráðuneytinu að stefnt sé að því að selja dýr, stór og viðhaldsfrek einbýlishús og kaupa minni íbúðir í staðinn, sem séu ódýrar í rekstri og krefjist minna viðhalds.
Ný íbúð þegar keypt
Þegar hafi verið gengið frá kaupum á íbúð í miðbæ Óslóar sem bjóði einnig upp á meira öryggi en núverandi sendiherrabústaður. Íbúðin sé samt sem áður ekki síðri til veislu- og viðburðahalda.

Sendiherrabústaðurinn sé 768 fermetrar og í honum séu sjö svefnherbergi, tvö eldhús, þrjár stofur. Húsið standi á ríflega 0,8 hektara lóð. Ítarlega fasteignaauglýsingu má sjá hér.
Var í eigu súkkulaðikóngs
Húsið hafi verið í eigu íslenska ríkisins frá árinu 1952 en hafi þar áður verið í eigu kaupsýslumannsins Johan Throne Holst, sem gerði súkkulaðigerðina Freiu að þeirri stærstu sinnar tegundar í Noregi.

Þá segir að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem sendiherrabústaðurinn er settur á sölu en það hafi verið gert árið 2009, í kjölfar efnahagshrunsins. Þá hafi nægilega hátt tilboð ekki borist í eignina og hún því haldist í íslenskri eigu.