Donald Trump Bandaríkjaforseti fyrirskipaði aukinn kraft í árásir gegn meðal annars Hútum í því sem Reuters kallar stærstu hernaðaraðgerðina í Miðausturlöndum í valdatíð hans. Hann heitir áframhaldandi árásum svo lengi sem Hútastjórnin heldur áfram loftárásum á flutningaskip sem sigla um Rauðahafið.
Heilbrigðisyfirvöld í Jemen segja hátt í 200 særða eftir árásina og að björgunaraðgerðir hafi varað lengi. Auk hermanna Húta létust starfsmenn olíufélaga sem starfrækt eru á höfninni.
Samkvæmt upplýsingum frá Bandaríkjaher var tilgangur árásarinnar að minnka eldsneytisbirgðir Húta. Á Ras Isa höfninni er þéttskipað herlið hverju sinni auk þess sem hún er aðal móttökustaðurinn fyrir innflutt eldsneyti, samkvæmt heimildum Reuters.
Ísraelar og Bandaríkjamenn hafa áður beint skotum sínum að höfninni, þaðan sem þeir telja flestar loftárásir Húta á skip í Rauðahafinu koma.
Síðan í nóvember 2023 hafa Hútar gert tugi loftárása á flutningaskip sem átt hafa leið um Rauðahafið. Hútastjórnin segir árásirnar gerðar til að sýna Palestínumönnum samstöðu, skotunum sé beint að skipum með tengingar við Ísrael.