Enski boltinn

United vill fá Cunha

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Matheus Cunha í baráttu við Noussair Mazraoui sem gæti orðið samherji hans hjá Manchester United.
Matheus Cunha í baráttu við Noussair Mazraoui sem gæti orðið samherji hans hjá Manchester United. getty/Wolverhampton Wanderers FC

Manchester United hefur mikinn áhuga á Matheus Cunha, brasilíska framherjanum hjá Wolves.

Búist er við því að Cunha yfirgefi herbúðir Wolves eftir tímabilið. Í samningi hans er riftunarákvæði sem hljóðar upp á 62,5 milljónir punda.

United hefur gengið illa að skora í ensku úrvalsdeildinni í vetur og mun væntanlega styrkja framlínu liðsins í sumar. Liam Delap, markahæsti leikmaður Ipswich Town í vetur, hefur verið sterklega orðaður við United sem og Cunha sem hefur átt afar gott tímabil með Wolves.

Brassinn hefur skorað sextán mörk fyrir Úlfana í vetur, þar af fjórtán í ensku úrvalsdeildinni. Hann hefur alls skorað 32 mörk í 87 leikjum fyrir Wolves síðan hann kom til félagsins frá Atlético Madrid í janúar 2023.

Cunha, sem er 25 ára, hóf feril sinn í Evrópu með Sion í Sviss en fór þaðan til Þýskalands; fyrst til RB Leipzig og svo Herthu Berlin. Atlético Madrid keypti hann svo sumarið 2021. Cunha hefur leikið þrettán leiki fyrir brasilíska landsliðið og skorað eitt mark.

United tapaði einmitt fyrir Cunha og félögum í Wolves, 0-1, á sunnudaginn. Rauðu djöflarnir eru í 14. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 38 stig, jafn mörg og Úlfarnir sem eru í 15. sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×