AP hefur eftir lögreglu á Indlandi að árásinni sé lýst sem hryðjuverkaárás sem framin hafi verið af uppreisnarmönnum sem hafa barist gegn indverskum yfirráðum héraðsins. Lögregla girti af stórt svæði í kjölfar árásarinnar.
Héraðsstjórinn Omar Abdullah segir að árásin sé sú stærsta sem hefur beinst gegn almennum borgurum í héraðinu í mörg ár. Forsætisráðherrann Narendra Modi segir ljóst að árásarmennirnir verði dregnir til ábyrgðar og að stjórnvöld séu nú enn staðráðnari í að berjast gegn hryðjuverkastarfsemi í landinu.
Fyrstu fréttir hermdu að árásin hafi átt sér stað við Baisaran-engina, um fimm kílómetra frá bænum Pahalgam sem oft hefur verið lýst sem „Sviss Indlands“. Milljónir ferðamanna heimsækja Kasmír á ári hverju.
Enn sem komið er hefur enginn hópur lýst yfir ábyrgð á árásinni, en íslamskir uppreisnarhópar hafa reglulega staðið fyrir árásum frá 1989 þó að þeim hafi farið fækkandi á síðustu árum. Tugir þúsunda manna hafa látið lífið í árásum uppreisnarhópa í Kasmír síðustu áratugina.
Stjórnvöld í Indlandi og Pakistan ráða hvort um sig yfir hluta Kasmír-héraðs þó að geri bæði tilkall til héraðsins í heild sinni. Múslímar eru í meirihluta í Kasmír-héraði en héraðinu var skipt upp í kjölfar sjálfstæðis Indlands frá Bretlandi og myndun Pakistans árið 1947.