Fótbolti

„Ekki fal­legt að sjá hvernig farið er með Ancelotti“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlo Ancelotti, þjálfari Real Madrid, hefur mátt þola mikla gagnrýni eftir skellinn á móti Arsenal.
Carlo Ancelotti, þjálfari Real Madrid, hefur mátt þola mikla gagnrýni eftir skellinn á móti Arsenal. Getty/Florencia Tan Jun

Þjálfari Barcelona finnur til með kollega sínum hjá erkifjendunum í Real Madrid en fjölmiðlamenn á Spáni tóku því afar illa þegar Real Madrid fékk skell á móti Arsenal á dögunum.

Hansi Flick og Carlo Ancelotti voru að berjast um alla titlana á þessu tímabili með liðum sínum Barcelona og Real Madrid. Barcelona á enn von um að vinna þrefalt en Ancelotti var fórnarlamb herferðar gegn sér í spænskum fjölmiðlum eftir að Real Madrid datt út úr Meistaradeildinni á móti Arsenal.

Barcelona og Real Madrid mætast í bikarúrslitaleiknum um komandi helgi og Barcelona er síðan sjö stigum á undan Real í baráttunni um spænska meistaratitilinn. Þetta gæti því orðið titlalaust tímabil hjá ríkjandi Spánar- og Evrópumeisturum.

Þjálfari Börsunga finnur til með kollega sínum eftir þá meðferð sem hinn sigursæli Ancelotti hefur mátt þola að undanförnu í spænskum fjölmiðlum.

„Það er ekki fallegt að sjá hvernig farið er með Ancelotti,“ sagði Hansi Flick eftir 1-0 sigur Barcelona á Mallorca í gærkvöldi.

„Real Madrid er með einn best þjálfara í heimi og hann á skilið miklu meiri virðingu,“ sagði Flick.

Strax eftir að Arsenal sló Real Madrid út úr Meistaradeildinni komu fram blaðagreinar um að Ancelotti fengi ekki að klára þetta tímabil og hann síðasti leikur yrði bikarúrslitaleikurinn á móti Barcelona.

„Carlo hefur unnið allt hjá öllum félögum. Hann er heiðursmaður. Ég ber mikla virðingu fyrir honum og það verður frábært að fá að mæta honum á ný í bikarúrslitaleiknum um helgina,“ sagði Flick.

„Ég segi það hreint út að Ancelotti er ótrúlegur þjálfari,“ sagði Flick.

Ancelotti á eitt ár eftir af samningi sínum en hann hefur verið mikið orðaður við brasilíska landsliðið að undanförnu. Hann sjálfur hefur ekki verið með neinar yfirlýsingar um framtíð sína hjá Real.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×