Þróttur Reykjavík komst 2-0 yfir gegn Íslandsmeisturum Breiðabliks en á endanum tókst Blikum að sækja stig í Laugardalinn. Að mati Bestu markanna var stigið þó ef til vill heldur ósanngjarnt þar sem Þróttarar voru frábærir í leiknum.
„Þróttarar mættu mjög hátt á Blikana, pressuðu þær, beindu þeim inn á miðju og átu þær þar. Alveg trekk í trekk unnu þær boltann af þeim hátt á vellinum og Blikar voru í bullandi vandræðum. Byrja í tígulmiðjunni og virðast svo skipta yfir í 4-4-2,“ sagði Mist og hélt áfram.
„Þær voru að reyna bregðast við og leysa þetta. Það gekk ekkert betur. Voru mjög ósamstíga í sinni pressu, Berglind Björg (Þorvaldsdóttir) fór kannski í pressu en Birta (Georgsdóttir) fylgdi ekki með. það var bara vesen á Blikaliðinu.“
„Þess vegna held ég að Þróttarar hljóti að vera ótrúlega svekktar að uppskera ekki meira en eitt stig í lok leiks því þetta var að mörgu leyti frábær leikur hjá þeim,“ sagði Mist en sjá má umræðu Bestu markanna sem og helstu atriði leiksins í spilaranum hér að neðan.