Fótbolti

Súrt hjá bæði Sæ­dísi og Vig­dísi Lilju í toppslag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vigdís Lilja Kristjánsdóttir fékk því miður ekki sigur í afmælisgjöf en hún hélt upp á afmæli sitt í vikunni.
Vigdís Lilja Kristjánsdóttir fékk því miður ekki sigur í afmælisgjöf en hún hélt upp á afmæli sitt í vikunni. @rscawomen

Íslensku knattspyrnukonurnar Sædís Rún Heiðarsdóttir og Vigdís Lilja Kristjánsdóttir þurftu báðar að sætta sig við tap í leikjum sinna liða í dag. Í báðum tilfellum voru þetta mikilvægir leikir í toppbaráttunni.

Vigdís Lilja og félagar í Anderlecht töpuðu 1-2 á heimavelli á móti OH Leuven eftir að hafa komist yfir í leiknum. Vigdís var í byrjunarliði Anderlecht en Diljá Ýr Zomers var aftur á móti ekki í hóp hjá Leuven.

Anderlecht komst yfir tveimur mínútum fyrir hálfleik en gestirnir tryggðu sér sigurinn með mörkum á 47. og 61. mínútu.

Anderlecht er enn á toppnum í deildinni en Leuven náði liðinu að stigum með þessum góða endurkomusigri.

Sædís Rún félagar í Vålerenga töpuðu 3-0 á heimavelli á móti Brann og fyrir vikið er Brann komið með sex sitga forskot á þær í toppbaráttunni.

Brann hefur unnið alla sex leiki sína á tímabilinu og það með markatölunni 23-2. Þetta var annað tap Vålerenga í sex leikjum.

Sædís Rún var að venju í byrjunarliði Vålerenga.

Lauren Davidson og Signe Gaupset skoruðu fyrstu tvö mörk Brann, það fyrra kom á 20. mínútu en það síðara á 64. mínútu. Undir lokin bætti Gaupset síðan við sínu öðru marki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×