Erlent

Allt í rugli á Rauða­hafi

Jón Þór Stefánsson skrifar
Samkvæmt bandarískum miðlum var þotan rándýr.
Samkvæmt bandarískum miðlum var þotan rándýr. EPA

Orrustuþota bandaríska hersins, af gerðinni F/A-18 Super Hornet, féll til sjávar og sökk niður á botn Rauðahafs. Bandaríski sjóherinn greinir frá þessu, en þetta er í þriðja skiptið á skömmum tíma sem mál tengd sama flugmóðurskipinu komast í fréttir.

Atvikið átti sér stað á flugmóðurskipinu USS Harry S. Truman. Verið var að draga þotuna úr flugskýli þegar starfsmenn sjóhersins misstu stjórn á aðstæðum. Bæði þotann og togtækið féllu um borð.

Einn maður var í þotunni og annar í togtækinu. Þeim tókst báðum að koma sér undan áður en þeir féllu til sjávar. Annar þeirra er sagður hafa hlotið minni háttar meiðsli.

Samkvæmt bandarískum miðlum er þota sem þessi verðmetin á sextíu til sjötíu milljónir Bandaríkjadala, en það jafngildir um 7,7 til 8,9 milljörðum króna.

USS Harry S. Truman-flugmóðurskipið er nú á Rauðahafi til að verja flutningaskip gegn árásum Húta í Jemen. CNN hefur eftir heimildarmanni úr hernum að atvikið hafi átt sér stað þegar kröpp beygja hafi verið tekin til að verjast árás Húta.

Flugmóðurskipið USS Harry S. Truman er nú á Rauðahafi.AP/Darko Bandic

Ekki fyrsta vesenið

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem áhöfnin á umræddu flugmóðurskipi lendir í veseni tengdu orrustuþotu af þessu tagi.

Greint var frá því í desember að samskonar þota hefði verið skotin niður á Rauðahafi af öðru bandarísku herskipi, beitiskipinu Gettysburg, fyrir mistök. Þá komust tveir flugmenn þotunnar af ómeiddir.

Og í febrúar síðastliðnum lenti flugmóðurskipið í árekstri við kaupskip nálægt Egyptalandi. Þá meiddist jafnframt enginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×