Íslenski boltinn

Sjáðu sjálfs­markið sem skipti sköpum og fyrstu mörk Lífar

Sindri Sverrisson skrifar
Þróttarar unnu kærkominn sigur í gær og hafa byrjað leiktíðina ágætlega.
Þróttarar unnu kærkominn sigur í gær og hafa byrjað leiktíðina ágætlega. vísir/Diego

Íslandsmeistarar Breiðabliks og Þróttur eru í hópi fjögurra efstu liða Bestu deildar kvenna í fótbolta eftir þrjár umferðir, eftir sigurleiki í gærkvöld. Mörkin úr leikjunum má sjá á Vísi.

Breiðablik vann 7-1 risasigur á nýliðum Fram í Kópavoginum. Hin 17 ára gamla Líf Joostdóttir van Bemmel skoraði sín fyrstu tvö mörk í efstu deild en þessi efnilega U19-landsliðskona nýtti sér í bæði skiptin stoðsendingar frá Öglu Maríu Albertsdóttur.

Heiðdís Lillýardóttir, Andrea Rut Bjarnadóttir, Birta Georgsdóttir, Samantha Smith og Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoruðu einnig en Katrín Erla Clausen gerði mark Fram á 62. mínútu, tíu mínútum eftir að liðið missti Sylvíu Birgisdóttur af velli með rautt spjald.

Í Víkinni vann Þróttur 1-0 sigur á Víkingum í slag liða sem spáð var afar svipuðu gengi á leiktíðinni. Sigurborg K. Sveinbjörnsdóttir, markvörður Víkings, varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark en heiðurinn að því á Katie Cousins sem setti boltann í stöngina, þaðan í bak Sigurborgar og inn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×