Innlent

Ekkert sem bendi til málþófs um veiðigjöld

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Þórunn Sveinbjarnadóttir forseti Alþingis ákvað að fresta umræðu um veiðigjöld til morguns. Hún býst við að frumvarpið verði afgreitt fyrir sumarhlé á Alþingi. 
Þórunn Sveinbjarnadóttir forseti Alþingis ákvað að fresta umræðu um veiðigjöld til morguns. Hún býst við að frumvarpið verði afgreitt fyrir sumarhlé á Alþingi.  Vísir

Forseti Alþingis er bjartsýn á að frumvarp um veiðgjöld verði afgreitt á þingi fyrir sumarhlé. Hún ákvað að fresta umræðu um veiðigjöldin til morguns svo hægt sé að koma sölu Íslandsbanka á dagskrá þingsins.

Þingmenn hafa í vikunni tekist á um nýtt frumvarp atvinnuvegaráðherra um veiðigjöld fram á kvöld á þingi. Lagðar eru til breytingar á skráðu aflaverðmæti fyrir tiltekna nytjastofna við útreikning veiðigjalds. Samkvæmt frumvarpinu á að innheimta ríflega 17 milljarða veiðigjöld á næsta ári í stað ríflega ellefu milljarða króna. Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa talað um málið sem hækkun á veiðigjaldi meðan stjórnarmeirihlutinn vill meina að um leiðréttingu sé að ræða. 

Þórunn Sveinbjarnadóttir forseti Alþingis ákvað um níu í gærkvöldi að fresta umræðu um veiðigjöldin til morguns.

„Það var auðvitað við því að búast að um þetta mál yrði mikil umræða og hún hefur gengið ágætlega hingað til. Það varð að samkomulagi í gærkvöldi að setja aðra umræðu um sölu á eignarhlut ríkisins á Íslandsbanka á dagskrá þingsins og ljúka henni þannig að það væri hægt að afgreiða það frumvarp.  Það er mjög mikilvægt að það hljóti afgreiðslu. Ég ákvað því að fresta umræðu um veiðigjöldin en henni verður framhaldið á morgun,“ segir Þórunn.

Bjartsýn á að frumvarpið verði afgreitt fyrir sumarið

Hún segir að margir hafi viljað tjá sig um veiðigjöldin þegar fundi var frestað í gærkvöldi.

„Það var löng mælendaskrá þegar við frestuðum fundi í gærkvöldi þannig að það verður örugglega drjúg umræða um veiðigjöldin á fimmtudaginn," segir Þórunn sem segir þó ekkert benda til að að stjórnarandstaðan beiti málþófi í málinu. 

Þórunn er bjartsýn á að þingið afgreiði frumvarpið áður en það fer í sumarfrí sem nú er áætlað um 17. júní.

„Það stendur ekki annað til en að við afgreiðum frumvarp um veiðigjöldin frá þinginu fyrir sumarhlé,“ segir Þórunn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×