Innherji

Nýsköpunar­fyrir­tækið Ál­vit tryggir sér fimm­tíu milljóna sprota­fjár­mögnun

Hörður Ægisson skrifar
Teymi Álvits er með víðtæka reynslu á sviði efna- og verkfræði, nýsköpunar og rannsókna fyrir málm- og orkuiðnaðinn. Frá vinstri er Kristján Friðrik Alexandersson, Sigrún Nanna Karlsdóttir, Sunna Ólafsdóttir Wallevik og Sverrir Ásbjörnsson.
Teymi Álvits er með víðtæka reynslu á sviði efna- og verkfræði, nýsköpunar og rannsókna fyrir málm- og orkuiðnaðinn. Frá vinstri er Kristján Friðrik Alexandersson, Sigrún Nanna Karlsdóttir, Sunna Ólafsdóttir Wallevik og Sverrir Ásbjörnsson.

Nýsköpunarfyrirtækið Álvit hefur tryggt sér um fimmtíu milljóna króna sprotafjármögnun frá Nýsköpunarsjóðnum Kríu (áður Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins) og hópi englafjárfesta, meðal annars frá Guðmundi Fertram, stofnanda Kerecis. Nýta á fjármagnið einkum til að markaðssetja fyrstu vöru félagsins.

„Við erum þakklát nýjum fjárfestum, Rannís og Tækniþróunarsjóði fyrir að gera okkur kleift að fullþróa lífræna lausn sem hefur sömu eignileika og koltjörubik,“ segir Dr. Kristján Friðrik Alexandersson, framkvæmdastjóri vöruþróunar og meðstofnandi Álvits, í tilefni af fjármögnuninni, og bætir við:

„Það sem gerir nýju lausnina einstaklega spennandi kost er ekki bara það að hún losar ekki frá sér nein heilsuspillandi efni, heldur er hún líka framleidd úr endurnýjanlegu hráefni, á meðan koltjörubik er aukaafurð úr vinnslu á kolum.”

Fjármagnið sem félagið hefur núna fengið verður sem fyrr segir fyrst og fremst nýtt til þess að markaðsetja fyrstu vöru fyrirtækisins – umhverfisvænan kragasalla sem verndar skautgaffla í rafgreiningarkerum álvera, auk þess að undirbúa að sækja frekari vaxtarfjármögnun á komandi mánuðum.

Við erum þakklát nýjum fjárfestum, Rannís og Tækniþróunarsjóði fyrir að gera okkur kleift að fullþróa lífræna lausn sem hefur sömu eignileika og koltjörubik.

Í tilkynningu frá Álvit kemur fram að félagið, stofnað fyrir um fimm árum, hefur fullþróað umhverfisvænan kragasalla til að leysa af hólmi kragasalla bundinn með koltjörubiki (e. coal tar pitch), sem rannsóknir hafa sýnt fram á að er bæði heilsuspillandi og krabbameinsvaldandi. Árið 2020 varkoltjörubik sett á bannlista Efnafræðistofnunar Evrópu (ECHA) vegna losunar á krabbameinsvaldandi PAH efnum.

Þar sem kragasalli er notaður í návígi við starfsfólk álvera er mikil þörf á nýrri kragasalla lausn, en lausn Álvits er fyrsta umhverfisvæna varan sem getur komið alfarið í staðinn fyrir kragsaalla bundinn með koltjörubiki. Markaðurinn fyrir koltjörubik á heimsvísu nemur um fimm milljörðum Bandaríkjadala, sem samsvarar um 642 milljörðum íslenskra króna. Alþjóðleg álframleiðslufyirirtæki eru stærstu notendur koltjörubiks í formi kragasalla, en um 45 prósent af öllu koltjörubiki er notað við álframleiðslu.

Kristín Friðgeirsdóttir, prófessor við London Business School og fyrrverandi fjármálastjóri Sýnar, og Gunnlaugur Árnason, framkvæmdastjóra hjá erfða- og líftæknifélaginu Arctic Therapeutics, koma ný inn í stjórn Álvits eftir fjármögnuna. Kristín verður stjórnarformaður félagsins.

Auk Kríu inniheldur fjárfestahópurinn fjáfestingafélagið FnF – sem er í eigu stofnenda Kerecis, Guðmundar Fertrams Sigurjónssonar og Fanneyjar Hermannsdóttur, Dr. Sigurjón Ólafsson, efnafræðing og prófessor emeritus, Dr. Kristínu Friðgeirsdóttur, prófessor við London Business School og fyrrverandi fjármálastjóra Sýnar, Gunnlaug Árnason, framkvæmdastjóra hjá erfða- og líftæknifélaginu Arctic Therapeutics, auk félags í eigu Úlfars Schaarup Hinrikssonar, eiganda Suzuki á Íslandi. Samhliða fjárfestingunni hafa Kristín og Gunnlaugur tekið sæti í stjórn Álvits, en Kristín verður stjórnarformaður.

Rannsóknir Álvits, að því er segir í tilkynningu, gefa einnig sterklega til kynna notkunarmöguleika á nýja háhita og tæringaþolna varnarefninu í geirum þar sem ekki hefur tekist að þróa öruggan arftaka koltjörubiks, til dæmis húðun á viðkvæmum íhlutum í orkufrekum iðnaði og jarðvarmageiranum. Þróar Álvits hópurinn því samtímis mjög háhita og tæringarþolið varnarefni fyrir ýmsar aðstæður og unhverfisvæn rafskaut álvera, kísilvera og fyrir annan melmisiðnað.

Álvit var stofnað árið 2020 af frumkvöðlunum Sunnu Ólafsdóttur Wallevik, forstjóra félagsins, Dr. Sigrúnu Nönnu Karlsdóttur, framkvæmdastjóra vísinda- og rannsóknarsviðs, og Dr. Kristjáni Friðriki Alexanderssyni, framkvæmdastjóra vöruþróunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×