Viðskipti innlent

Marg­föld umframáskrift en út­boðið ekki stækkað í bili

Árni Sæberg skrifar
Daði Már Kristófersson er fjármála- og efnahagsráðherra.
Daði Már Kristófersson er fjármála- og efnahagsráðherra. Vísir/Vilhelm

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur ekki tekið ákvörðun um að stækka útboðið í Íslandsbanka. Áskriftir bárust samdægurs í tuttugu prósenta hlut sem boðinn var út í fyrradag og í heild hefur margföld umframáskrift borist í hlutinn. Heimild til að stækka útboðið kann að verða nýtt í ljósi þessa.

Þetta kemur fram í tilkynningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins. 

„Ráðuneytið tilkynnir hér með að margföld umframáskrift hefur fengist fyrir grunnmagni útboðsins. Líkt og kemur fram í útboðslýsingu munu áskriftir í tilboðsbók A njóta forgangs við úthlutun, í samræmi við markmið um að mæta eftirspurn einstaklinga áður en úthlutað er til fjárfesta í tilboðsbókum B og C. Fjármála- og efnahagsráðherra hefur heimild til að auka útboðsmagnið ef umframeftirspurn verður til staðar í útboðinu, heimild sem kann að verða nýtt í ljósi þessarar þróunar. Frekari upplýsingar um framgang útboðsins munu verða birtar,“ segir í tilkynningunni.

Gert sé ráð fyrir að tilboðstímabili vegna útboðsins ljúki í dag klukkan 17 og fjárfestar geti breytt tilboðum sínum fyrir þann tíma. Gert sé ráð fyrir að niðurstöður úthlutunar í útboðinu verði tilkynntar fjárfestum þann 16. maí 2025 fyrir opnun markaða. Lokadagur greiðslu úthlutaðra hluta sé ákveðinn 20. maí 2025 og áætlað sé að greiddir útboðshlutir verði afhentir fjárfestum innan tveggja virkra daga frá því að greiðsla berst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×