Handbolti

Elvar í aðal­hlut­verki þegar Melsungen tók stórt skref í titilslagnum

Sindri Sverrisson skrifar
Elvar Örn Jónsson er algjör lykilmaður á báðum endum vallarins hjá Melsungen.
Elvar Örn Jónsson er algjör lykilmaður á báðum endum vallarins hjá Melsungen. Getty/Dean Mouhtaropoulos

Íslendingaliðið Melsungen heldur áfram að berjast um þýska meistaratitilinn í handbolta og komst yfir stóra hindrun í kvöld með 29-23 útisigri gegn Hannover-Burgdorf sem situr í 4. sæti deildarinnar.

Melsungen er nú jafnt Füchse Berlín á toppnum, með 48 stig, eftir 29 leiki af 34. Magdeburg er einnig með í titilbaráttunni, með 43 stig en tvo leiki til góða á hin tvö liðin. Vonir Hannover-Burgdorf um titilinn eru hins vegar úr sögunni núna en liðið er með 43 stig eftir 29 leiki.

Elvar Örn Jónsson var að vanda í algjöru lykilhlutverki hjá Melsungen og endaði næstmarkahæstur með sex mörk en aðeins Timo Kastening skoraði fleiri eða sjö. Arnar Freyr Arnarsson var hins vegar ekki á meðal markaskorara liðsins.

Melsungen var marki undir í hálfleik, 15-14, en náði fljótt forystunni í seinni hálfleiknum og hleypti heimamönnum ekki of nálægt sér. Munurinn var þó aðeins tvö mörk, 25-23, þegar um fimm mínútur voru eftir af leiknum en Melsungen fékk ekki á sig mark eftir það.

Melsungen mætir næst Wetzlar á mánudaginn en risaleikurinn við Füchse í Berlín er svo 29. maí, í fjórðu síðustu umferðinni.

Fyrr í kvöld skoraði Ýmir Örn Gíslason tvö mörk fyrir Göppingen sem varð að sætta sig við 31-30 tap gegn Bietigheim á útivelli. Göppingen siglir þó lygnan sjó í 13. sæti með 19 stig en Bietigheim þurfti á stigunum að halda í fallbaráttunni og er með 12 stig í þriðja neðsta sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×