Handbolti

Baldur mátaði sig við þá bestu og setur stefnuna á toppinn

Aron Guðmundsson skrifar
Baldur Fritz Bjarnason fór á kostum á sínu fyrsta tímabili í Olís deildinni og varð markakóngur deildarinnar. Áhugi er á hans kröftum erlendis frá en hann ætlar sér að klára eitt tímabil hér heima til viðbótar
Baldur Fritz Bjarnason fór á kostum á sínu fyrsta tímabili í Olís deildinni og varð markakóngur deildarinnar. Áhugi er á hans kröftum erlendis frá en hann ætlar sér að klára eitt tímabil hér heima til viðbótar Vísir/Bjarni

Á fyrsta tíma­bili sínu í efstu deild með nýliðum ÍR fór hinn átján ára gamli Baldur Fritz á kostum og varð markakóngur Olís deildarinnar í hand­bolta með 211 mörk. Áhugi er á honum er­lendis frá en hann ætlar að taka eitt tíma­bil hér heima í viðbót.

ÍR endaði í 10.sæti deildarinnar og náði mark­miði sínu sem var að halda sæti sínu í deildinni. Baldur fékk hins vegar hinn jákvæða haus­verk að setja sér ný mark­mið eftir því sem leið á tíma­bilið, svo vel gekk honum.

„Ég var búinn að setja mér mörg mark­mið um sumarið og ég þurfti að setja mér ný mark­mið um jólin. Þetta var geggjað tíma­bil og ógeðs­lega skemmti­legt. Gaman að fá að spila í efstu deild í fyrsta skipti og það heppnaðist bara vel.“

Og skildi engan undra að stór­lið í Evrópu horfi nú hýru auga til Breiðhyltingsins unga en þrátt fyrir at­hyglina ætlar hann að halda settri stefnu og spila hér heima í efstu deild eitt ár til viðbótar eða þar til hann lýkur sinni mennta­skólagöngu. Mennt er máttur og Baldur ætlar sér langt í fram­haldinu.

„Stefnan er auðvitað bara sett á toppinn. Ég ætla mér þangað. Það er alveg áhugi og eitt­hvað á borðinu en við bíðum aðeins með þetta. Það er lykil­at­riði að vera ekki að spá í þessu því þú verður bara ruglaður ef þú pælir allt­of mikið í þessu, hugsar um þetta alltaf. Ég reyni bara að taka einn dag í einu og verða eins góður og ég get.“

Baldur hefur hins vegar fengið smjörþefinn af at­vinnu­manna um­hverfinu því hann er nýkominn aftur til landsins eftir að hafa æft með þýska stór­liðinu Mag­deburg.

„Það var ótrú­lega gaman. Að fá að spila með þessum gaurum sem eru í heimsklassa og þú hefur fylgst með í mörg ár. Að fá loksins að sjá og vera í þessu um­hverfi, vera á æfingum og máta þig við þessa bestu. Það gekk ótrú­lega vel og var ótrú­lega gaman.“

Máta þig við þessa bestu segir þú. Hvar stóðst þú miðað við þá?

„Ég stóð mig mjög vel fannst mér. Ég átti alveg séns í þetta og það er miklu styttra í þetta en maður heldur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×