Lífið

Bak­slag í veikindi Val­geirs

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Valgeir Guðjónsson og Ásta Kristrún Ragnarsdóttir kona hans á góðri stundu.
Valgeir Guðjónsson og Ásta Kristrún Ragnarsdóttir kona hans á góðri stundu. Vísir/Daníel

Tónlistarmaðurinn Valgeir Guðjónsson berst fyrir lífi sínu á krabbameinsdeild Landspítalans eftir að bakslag kom í baráttu hans við víðtækt eitlakrabbamein sem hann greindist með árið 2021. Sonur hans segir að tónlistin verði alltaf hans haldreipi í baráttunni.

Valgeir greindist fyrst með eitlakrabbamein í maí 2021. Arnar Tómas Valgeirsson segir í færslu á Facebook að eftir ótrúlegan dugnað föður hans í meðferðinni sem á eftir fylgdi hafi verið greint frá því að eitlarnir væru orðnir hreinir. Fjölskylda Valgeirs hefði andað léttar.

„Það er þó ekki þar með sagt að pabbi hafi náð fullum bata. Hann hefur aldrei náð þeim þrótti sem hann hafði áður en veikindin sóttu að honum. Þegar tónlistin var annars vegar var hann þó í algleymi og var eins og ekkert hefði í skorist. Krabbameinið er nú komið aftur, enn grimmara en áður,“ segir Tómas.

Það sé nú í höndum læknavísindanna að takast á við þennan vágest.

„Pabbi er samt furðubrattur - hann hámar í sig spítalalasagna og horfir á hvern Friends þáttinn á fætur öðrum sem fóru fram hjá honum í den. Það er svo víst að tónlistin verður alltaf hans haldreipi í baráttunni,“ segir Tómas og birtir fallega mynd af föður sínum að koma sér fyrir á krabbameinsdeildinni.

Óhætt er að segja að Valgeir sé einn afkastamesti tónlistarlistamaður sinnar samtíðar en hann var meðal stofnenda bæði Stuðmanna og Spilverks þjóðanna. Báðar hljómsveitir höfðu djúpstæð áhrif á íslenskt tónlistarlíf. Hann er ekki aðeins fær með gítarinn heldur liggur eftir hann flóð lagatexta. Hann hefur samið tónlist fyrir bíómyndir og unnið með helstu listamönnum þjóðarinnar í yfir fimmtíu ár.

Að neðan má sjá þegar Vala Matt heimsótti hjónin Valgeir og Ástu Kristrúnu Ragnarsdóttur í nóvember 2022.

Þá má að neðan heyra viðtal Heimis Karlssonar við Valgeir og Jónatan Garðarsson frá því í fyrra um Spilverk þjóðanna.

Hér er svo spjall við Valgeir um lagið The School of Love sem hann söng með vinkonu sinni Völu Eiríks árið 2023.


Tengdar fréttir

Samdi lög á nýja plötu meðan hann glímdi við erfið veikindi

Valgeir Guðjónsson, einn af dáðustu tónlistarmönnum þjóðarinnar, lét erfið tíðindi ekki stöðva textasmíðina á árinu. Hann greindist með krabbamein í fyrra en með líftæknimeðferð og stuðningi fjölskyldunnar hafðist sigur á meininu. Von er á plötu frá Valgeiri með vorinu, með hækkandi sól og komu farfuglanna til landsins.

Val­geir af­henti Ingu texta­brot úr laginu Sigur­jón digri

Valgeir Guðjónsson tónlistarmaður og Ásta Kristrún Ragnarsdóttir, námsráðgjafi og rithöfundur, afhentu formönnunum þremur í ríkisstjórn ljóðagjöf fyrir fund ríkisstjórnarinnar í gær. Textabrot úr laginu Sigurjón digri féll vel í kramið hjá formanni Flokki fólksins, Ingu Sæland. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.