Erlent

Hvetja Ís­lendinga í Harvard til að hafa sam­band

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Sindri Freyr Ásgeirsson varaforseti SÍNE.
Sindri Freyr Ásgeirsson varaforseti SÍNE. Vísir/Arnar

Samband íslenskra námsmanna erlendis hvetur íslenska nemendur við Harvard háskóla til þess að hafa samband, í kjölfar þess að Bandaríkjastjórn tilkynnti forsvarsmönnum skólans í gær að heimild skólans til þess að taka við nemendum erlendis frá hafi verið felld úr gildi.

Ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta tilkynnti forsvarsmönnum Harvard háskóla í gær að heimild skólans til þess að taka við erlendum nemendum hefði verið felld úr gildi. Segir í tilkynningu frá heimavarnaráðuneyti Bandaríkjanna að það feli í sér að erlendir nemendur í skólanum þurfi að finna sér nýja skóla, annars muni þeir missa landvistarleyfi sitt. 

Ríkisstjórn Trump hefur að undanförnu gengið hart fram gegn skólanum eftir að stjórnendur hans neituðu að verða við kröfum um breytingar á stjórnarháttum, ráðningum og inntökuskilyrðum. Sindri Freyr Ásgeirsson varaforseti Sambands íslenskra námsmanna erlendis segir sambandið fylgjast vel með stöðunni.

„Þetta kemur manni vissulega á óvart en því miður hefur stefnt í þetta í smá tíma eftir að Trump tók við, við erum ennþá bara að reyna að skilja hvað þetta nákvæmlega þýðir fyrir þá nemendur sem eru úti og fyrir þá nemendur sem eru að fara og erum að reyna að átta okkur betur á stöðunni. Við hvetjum nemendur bæði þá sem eru í umsóknarferli og þá sem eru úti til þess að hafa samband við okkur þannig við getum betur áttað okkur á stöðunni.“

Hann segir sambandið ekki með heildstæðan lista yfir fjölda nemenda í hverjum skóla fyrir sig en hafi sett sig í samband við nemendur úti til að átta sig á stöðunni. Ljóst sé að miklir hagsmunir séu í húfi fyrir nemendurna.

„Þetta er náttúrulega gríðarlegt högg og fyrir nemendur sem kannski eru búnir að leggja mikið á sig til að komast í skólann og eins og þú segir borga gríðarlegar upphæðir að þá er þetta mikið högg og við erum að reyna að átta okkur betur á því hvað þetta nákvæmlega þýði, hvort nemendur séu úti og séu jafnvel á síðasta ári, hvort þeir geti klárað og annað slíkt en jú þetta er augljóslega gríðarlegt högg fyrir nemendur sem hafa lagt mikinn pening og tíma í það að stunda nám við þennan háskóla.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×