Enski boltinn

Forest bannaði Neville að mæta á völlinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gagnrýni Garys Neville á eiganda Nottingham Forest mæltist ekki vel fyrir hjá félaginu.
Gagnrýni Garys Neville á eiganda Nottingham Forest mæltist ekki vel fyrir hjá félaginu. getty/James Gill

Gary Neville, sparkspekingur á Sky Sports, segir að Nottingham Forest hafi meinað sér að mæta á leik liðsins gegn Chelsea á City Ground í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn.

Neville átti að vera meðlýsari á leiknum sem skiptir miklu máli í baráttunni um Meistaradeildarsæti. Ekkert verður hins vegar af því.

„Ég á engan annan kost en að segja mig frá umfjölluninni,“ sagði Neville á Instagram.

Hann gagnrýndi eiganda Forest, Evangelos Marinakis, eftir að hann stormaði inn á völlinn og ræddi við knattspyrnustjórann Nuno Espírito Santo eftir 2-2 jafntefli við Leicester City fyrr í þessum mánuði.

Neville sagði að Marinakis hefði farið langt yfir strikið, Nuno ætti að hætta og hann, leikmenn og stuðningsmenn Forest ættu þetta ekki skilið.

Forest hafnaði því að Marinakis hafi verið að skammast í Nuno heldur hafi hann verið afar ósáttur með að Taiwo Awoniyi hafi haldið að spila eftir að hafa meiðst. Framherjinn þurfti að gangast undir bráðaaðgerð eftir leikinn.

Neville segist aldrei hafa lent í öðru eins á fjórtán ára ferli í fjölmiðlum.

„Á meðan þeir eru í fullum rétti til að velja hverjum þeir hleypa inn á þeirra eigin völl er þetta lýsandi fyrir það sem hefur gerst undanfarna tólf mánuði hjá félaginu,“ sagði Neville.

„Að mínu mati eru það vonbrigði að svona frábært félag eins og Nottingham Forest sjái sig knúið til að taka svona ákvörðun.“

Forest er í 7. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og þarf að vinna Chelsea á sunnudaginn og treysta á að önnur úrslit verði hagstæð til að komast í Meistaradeildina á næsta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×