Fótbolti

Matic reyndist sann­spár með söluna á McTominay

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Scott McTominay smellir kossi á ítalska meistarabikarinn.
Scott McTominay smellir kossi á ítalska meistarabikarinn. getty/SSC NAPOLI

Nemanja Matic botnaði lítið í þeirri ákvörðun Manchester United að selja sinn gamla samherja, Scott McTominay, til Napoli í fyrra. Serbinn reyndist sannspár.

Þegar United seldi McTominay til Napoli á síðasta ári tísti Matic: „Mín skoðun er að Manchester United gerði mistök með því að selja Scott McTominay. Í dag er erfitt að fylla skarð svoleiðis leikmanna. [Antonio] Conte er klár maður.“

McTominay skoraði fyrra mark Napoli í 2-0 sigri á Cagliari í gær. Með sigrinum tryggði Napoli sér ítalska meistaratitilinn í annað sinn á þremur árum og fjórða sinn alls.

McTominay skoraði tólf mörk í ítölsku úrvalsdeildinni og var valinn verðmætasti leikmaður hennar.

„Mér er orða vant. Þetta er ótrúlegt, fórnirnar sem allir leikmennirnir í hópnum hafa fært fyrir málstaðinn. Fólkið á þetta skilið því það hefur stutt við bakið á okkur frá fyrsta degi og það er draumur fyrir mig að koma hingað og upplifa þetta,“ sagði McTominay eftir leikinn í gær.

Á meðan McTominay hefur gengið allt í haginn í Napoli og er orðin sannkölluð hetja í augum borgarbúa gengur ekkert hjá gamla liðinu hans.

United tapaði fyrir Tottenham, 1-0, í úrslitaleik Evrópudeildarinnar á miðvikudaginn og er í 16. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Napoli greiddi United aðeins 25,7 milljónir punda fyrir McTominay sem hafði leikið allan sinn feril með Manchester-liðinu, alls 255 leiki.

McTominay skoraði tíu mörk fyrir United á síðasta tímabili en þá varð liðið bikarmeistari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×