Erlent

Um­fangs­mestu loft­á­rásir frá upp­hafi stríðs

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Slökkviliðsmenn berjast við eld eftir loftárás í Kænugarði. 
Slökkviliðsmenn berjast við eld eftir loftárás í Kænugarði.  AP

Minnst tólf létust, þar af þrjú börn, og fjöldi særðist í loftárásum Rússlandshers víða um Úkraínu í nótt. Árásirnar voru þær umfangsmestu frá upphafi stríðs. 

Embættismenn segja herinn hafa skotið 298 drónum og 69 loftskeytum á borgir víðsvegar um Úkraínu, þar með talið í Kænugarði. Í borginni Zhytomyr létust þrjú börn í árásunum. Árásirnar eru þær umfangsmestu frá upphafi stríðsins að því leyti að aldrei hafa jafnmörg vopn verið notuð þó að fleiri hafi látist í öðrum árásum, samkvæmt umfjöllun Reuters

Ihor Klymenko innviðaráðherra Úkraínu segir sextíu særða eftir árásirnar, sem gerðar voru á þriðja og síðasta degi fangaskipta sem fólu í sér skipti á þúsund föngum úr haldi Úkraínu gegn þúsund föngum úr haldi Rússlands. 

Volodímír Selenskí fordæmdi aðgerðaleysi Bandaríkjanna í yfirstandandi friðarviðræðum Rússlands og Úkraínu í færslu á Telegram í morgun.

„Þögn Bandaríkjanna og þögn annarra þjóða hvetur Pútín bara áfram,“ skrifaði hann í færsluna. 

„Hver einasta hryðjuverkaárás eins og þessi er nægileg ástæða til frekari viðskiptaþvingana gegn Rússum.“

Friðarviðræður ríkjanna tveggja hafa gengið brösuglega en Donald Trump Bandaríkjaforseti hafnaði fyrr í vikunni að beita frekari viðskiptaþvingunum á Rússlandsstjórn eftir að hún hafnaði vopnahléstillögu Úkraínustjórnar. Í tillögunni fólst tafarlaust þrjátíu daga vopnahlé sem fyrsta skref í átt að friði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×