Fótbolti

Sótt að Sæ­vari Atla á flug­vellinum í Bergen

Aron Guðmundsson skrifar
Norskir fjölmiðlamenn ræða við Sævar Atla á flugvellinum í Bergen í morgun
Norskir fjölmiðlamenn ræða við Sævar Atla á flugvellinum í Bergen í morgun Mynd: TV2 í Noregi

Hópur fjölmiðla­manna var mættur á flug­völlinn í Bergen í morgun þegar að knatt­spyrnu­maðurinn Sævar Atli Magnússon lenti þar ásamt um­boðs­manni sínum á leið í viðræður við norska úr­vals­deildar­félagið Brann.

Sævar Atli er án félags eftir að samningur hans við danska úr­vals­deildar­félagið Lyng­by rann út eftir nýaf­staðið tíma­bil og hjá Brann mun hann meðal annars ræða við þjálfarann Frey Alexanders­son en Ís­lendingarnir störfuðu saman hjá Lyng­by á sínum tíma.

„Ég hef heyrt góða hluti um borgina sem og tengingu stuðnings­manna og félagsins. Ég hef ekki komið hingað til Bergen áður en þetta lítur út fyrir að vera mjög fal­leg borg,“ sagði Sævar Atli í samtali við TV 2 í Noregi í morgun.

Þá var borin undir hann full­yrðing þjálfara Brann, Freys Alexanders­sonar, um að þegar að Sævar Atli sér það sem félagið hefur upp á að bjóða og hittir fólkið sem hjá því starfar sé ekki mögu­leiki á að hann muni ekki skrifa undir samning hjá Brann.

„Ég hef trú á Frey en við þurfum að ræða saman,“ sagði Sævar Atli. „Ég er búinn að tala við hann og einnig við að­stoðarþjálfarann Hart­mann.“

Brann er á sínu fyrsta tíma­bili undir stjórn Freys og hefur byrjað vel. Sem stendur er liðið í 2.sæti norsku úr­vals­deildarinnar með tuttugu stig eftir níu leiki, þremur stigum á eftir topp­liði Viking en á leik til góða. Með liðinu spilar fyrir Ís­lendingurinn Eggert Aron Guð­munds­son.

Sævar Atli er upp­alinn hjá Leikni Reykja­vík en eftir að hafa tekið skrefið út í at­vinnu­mennskuna til Lyng­by hefur hann spilað 126 leiki fyrir félagið, skorað tuttugu mörk og gefið 15 stoð­sendingar.

Hann átti þátt í því að koma liðinu upp í dönsku úr­vals­deildina á sínum tíma, spilaði 62 leiki þar en á nýaf­stöðnu tíma­bili féll Lyng­by aftur niður í næ­stefstu deild.

Sævar Atli á að baki lands­leiki fyrir öll yngri lands­lið Ís­lands. Þá hefur hann spilað fimm A-lands­leiki.

Norskir fjölmiðlar hafa mikinn áhuga á málinu og hér má finna umfjöllun TV 2. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×