Fótbolti

Mörg hundruð manna mót­taka í Tyrk­landi: „Ég elska þig Logi!“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Logi var uppnuminn af hrifningu við sitt nýja heimafólk.
Logi var uppnuminn af hrifningu við sitt nýja heimafólk. samsunspor

Hundruð manna biðu Loga Tómassonar þegar hann lenti á flugvellinum í Samsun í Tyrklandi í fyrsta sinn, seint í gærkvöldi.

Logi er nýjasti leikmaður Samsunspor í tyrknesku úrvalsdeildinni, hann var keyptur af félaginu frá Stromsgodset í Noregi fyrir sjö hundruð þúsund evrur og gerði samning til ársins 2029.

Stuðningsmenn í Tyrklandi eru þekktir fyrir einstaklega mikla ástríðu fyrir sínu félagi og engin undantekning er hjá Samsunspor.

Því biðu hundruð manna, ef ekki meira, spennt fyrir því að sjá Loga lenda á flugvellinum í gærkvöldi.

Tekið var á móti honum með ljúfu sönglagi sem hljóðaði svo: „I love you Logi!“ eða „Ég elska þig Logi!“ á íslensku. Síðan tóku við aðrir söngvar sem erfitt er að þýða.

Fulltrúar félagsins voru á svæðinu og útfærðu flott myndskeið sem fangaði stemninguna á flugvellinum vel. Logi var síðan leiddur burt og upp í bíl, sem keyrði með hann á æfingasvæði félagsins og leyfði honum að virða fyrir sér aðstæður í fyrsta sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×