Enski boltinn

Borgaði bara ungmennaliðinu laun og nú má allt aðal­liðið fara frítt

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Dejphon Chansiri, eigandi Sheffield Wednesday, vill frekar halda ungum leikmönnum sem hann getur selt.
Dejphon Chansiri, eigandi Sheffield Wednesday, vill frekar halda ungum leikmönnum sem hann getur selt. getty

Fjárhagsstaðan er afar slæm hjá Sheffield Wednesday, sem spilar í Championship deildinni á Englandi. Um mánaðamótin borgaði félagið bara leikmönnum undir 21 árs aldri laun, því þeir eru verðmæt söluvara, og nú má allt aðalliðið rifta samningi sínum ef þeir vilja.

Fjórföldu Englandsmeistararnir í Sheffield greiddu einnig þjálfaranum Danny Rohl laun og greiddu þjálfarateymi hans hluta af launum sem þau eiga inni, en aðrir fengu ekki greitt, annan mánuðinn í röð.

Samkvæmt reglum FIFA mega leikmenn rifta samningi sínum með fimmtán daga fyrirvara ef þeir fá ekki greidd laun tvo mánuði í röð en forseti leikmannasamtakanna í Bretlandi segir samninginn nú þegar margbrotinn og ekki hægt að krefjast fimmtán daga frests lengur.

„Því miður á Sheffield Wednesday sér sögu af vangoldnum launum, ég held að þetta sé í þriðja skipti síðustu fjóra mánuði. Við höfum verið í samskiptum við leikmenn, okkar hlutverk er ekki að segja þeim hvað þeir eiga að gera, heldur veita þeim tækifæri til að sækja sinn rétt. Það er síðan þeirra að ákveða hvað þeir vilja gera“ sagði forseti leikmannasamtakanna (PFA), Maheta Molango.

Sheffield Wednesday hefur nú þegar fengið félagaskiptabann í þessum og næstu tveimur gluggum og eigandi félagsins, Dejphon Chansiri, hefur verið kærður af deildarsamtökunum EFL.

Félagið er til sölu og án æfingasvæðis eins og er, nýi völlurinn á æfingasvæðinu er ekki tilbúinn og liðið hefur ekki heldur bókað neina æfingaleiki á undirbúningstímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×