Fótbolti

Eld­ræða Ása: „Fyrir­sláttur hjá fólki að halda og tengja þetta“

Aron Guðmundsson skrifar
Ásmundur Haraldsson, aðstoðarþjálfari íslenska kvennalandsliðsins gefur lítið fyrir gagnrýni á virkni leikmanna á samfélagsmiðlum
Ásmundur Haraldsson, aðstoðarþjálfari íslenska kvennalandsliðsins gefur lítið fyrir gagnrýni á virkni leikmanna á samfélagsmiðlum

Þjálfarar ís­lenska kvenna­lands­liðsins hafa ekki áhyggjur af virkni leik­manna á sam­félags­miðlum líkt og heyra mátti gagn­rýnda utan her­búða liðsins eftir tap­leik gegn Finn­landi á dögunum á EM.

Þeir sem hafa vafrað um á TikTok og Insta­gram upp á síðkastið hafa að öllum líkindum rekist á mynd­bönd frá leik­mönnum ís­lenska kvenna­lands­liðsins eða KSÍ þar sem að mikið hefur verið lagt í að hleypa stuðnings­mönnum liðsins á bak við tjöldin á EM veg­ferð liðsins.

Eftir tapið gegn Finnum í fyrsta leik á EM á dögunum, þar sem að frammistaða liðsins olli von­brigðum, varð sam­félags­miðla­virkni stelpnanna fljótt gagn­rýnd og af ein­hverjum talin þvælast fyrir. Að fókusinn væri ekki á boltanum heldur TikTok.

Fyrr­verandi lands­liðs­konurnar Þóra Björg og Ást­hildur Helga­dætur viður­kenndu í hlað­varpsþættinum Besta sætinu sögðu sam­félags­miðla­virknina ekki alveg sinn te­bolla og vitnuðu í fyrr­verandi lands­liðsþjálfara sinn Loga Ólafs­son sem á að hafa sagt: „Fyrst vinnum við leikinn og svo fíflumst við.“

„Erum í þversögn þarna“

Óhætt er að segja að núverandi þjálfara­t­eymi ís­lenska kvenna­lands­liðsins gangi í takt hvað af­stöðu til þessa máls varðar. Sam­félags­miðla­notkun leik­manna er ekki vanda­mál og þvælist ekki fyrir verk­efninu á EM.

„Við vorum nú bara að horfa á heila seríu (Systra­slag) um sögu kvennaknatt­spyrnu á Ís­landi þar sem að takturinn út í gegn er sá að það er verið að berjast um at­hygli, verið að berjast fyrir því að þær sjáist. Svo loksins þegar að þær eru þar þá eiga þær ekki að gera það. Ég held að við séum í pínulítilli þversögn þarna,“ sagði Ás­mundur Haralds­son, að­stoðarþjálfari lands­liðsins í sam­tali við íþrótta­deild Sýnar.

Klippa: Gagnrýnin hjákátleg

„Málið er bara að þær eru svo miklir fag­menn í því sem að þær eru að gera að þetta hefur ekkert að segja, truflar ekkert. Þetta er ein­hver fyrir­sláttur hjá fólki að halda og tengja þetta. Við finnum ekki neitt fyrir þessu hér. Þegar að þær eru á fundum hjá okkur þá eru þær on it, þegar að þær eru á æfingum hjá okkur og í leikjum er það sama upp á teningnum og ekkert verið að spá í ein­hverja sam­félags­miðla.“

Ási þekkir heim sam­félags­miðla í gegnum börnin sín.

„Þetta er bara hjákát­legt í því sam­hengi. Það var margt gert til þess að fanga at­hygli þjóðarinnar, við fundum svo sannar­lega fyrir árið 2017 þegar að þjóðin kom al­gjör­lega á vagninn á EM. Það var bara partur af því að fá fólk til að tengjast þessu liði og fylgja þeim því að þetta eru frábærar stelpur og það er það sem á að ein­blína á. Fyrir hvað þær standa, hvað þær gera.“

Leik­menn séu bara að gera sig sýni­lega.

„Leyfa fólkinu að sjá inn í þeirra heim hérna, hvað þær eru að gera og hvað sé verið að gera á milli leikja. Ég held að það sé bara mikilvægt, sér­stak­lega fyrir unga iðk­endur, stelpur og stráka sem sjá að þetta er lífið þeirra og að þangað vilji þau komast. Ég hugsa að það gefi þessu meira vægi heldur en hitt. Nokkurn tímann.“

„Fyndin umræða“

Þor­steinn Halldórs­son, lands­liðsþjálfari tekur í svipaðan streng og Ási.

Klippa: „Ert að ræða þetta við miðaldra karlmann“

Það bar mikið á því eftir tapið gegn Finnum að virkni leik­manna á sam­félags­miðlum væri gagn­rýnd. Gefurðu þessu ein­hvern gaum?

„Þú ert að ræða þetta við miðaldra karl­mann,“ svaraði Þor­steinn. „Þetta er bara hluti af lífinu í dag held ég. Mér finnst þetta bara svo fyndin um­ræða. Um daginn var verið að hrósa þessu og núna er þetta allt í einu orðið vanda­mál. Ég veit ekkert hvað ég á að segja við þessu.“

Voru gagnrýndar fyrir eitthvað annað fyrir komu TikTok

Gunn­hildur Yrsa Jóns­dóttir er styrktarþjálfari ís­lenska kvenna­lands­liðsins og fyrr­verandi lands­liðs­kona, með yfir eitt hundrað A-lands­leiki á bakinu. Er hún á því að sam­félags­miðla­notkun þvælist fyrir fag­menns­kunni?

Klippa: „Ég er ekki sammála þessu“

„Ég held ekki nei,“ ef þú kíkir á sam­félags­miðla og TikTok hjá öðrum liðum þá er þetta bara alveg eins. Sum þessara liða sækja þrjú stig önnur ekki. Þetta eru bara breyttir tímar. Þegar að ég var í lands­liðinu var kannski ekkert TikTok en þá var kannski bara eitt­hvað annað sem við vorum gagn­rýndar fyrir. Ég er ekki sammála þessu, þessar stelpur eru með fulla ein­beitingu og eru al­gjörar at­vinnu­konur. Þetta er ekkert sem ég hef áhyggjur af.“

Ís­land mætir heima­konum í Sviss í annarri um­ferð riðla­keppni EM í Bern á sunnu­daginn kemur klukkan 19 á ís­lenskum tíma. Finna má alla um­fjöllun íþrótta­deildar Vísis og Sýnar um mótið í gegnum hlekkinn hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×