Fótbolti

Vilja allar það sem Svein­dís hefur: „Margt sem ég myndi vilja taka frá þeim“

Sindri Sverrisson skrifar
Guðný Árnadóttir er ansi fljót en engin slær Sveindísi þó við í þeim efnum.
Guðný Árnadóttir er ansi fljót en engin slær Sveindísi þó við í þeim efnum. Getty/Florencia Tan Jun

„Mér finnst þetta auðvitað mjög gott,“ segir Sveindís Jane Jónsdóttir um það að búa yfir sennilega mesta hraða nokkurs leikmanns á Evrópumótinu í fótbolta. Liðsfélagar hennar í íslenska landsliðinu eru alla vega sammála um að þessi hæfileiki hennar sé eitthvað sem þær myndu vilja hafa.

Knattspyrnusamband Evrópu birti á samfélagsmiðlum sínum myndband frá EM þar sem leikmenn Íslands áttu að svara því hvaða eiginleika þeir vildu helst frá öðrum leikmanni í liðinu. Svörin voru öll á einn veg, þær vildu hraða Sveindísar.

Eru þær þá ekki allar svolítið öfundsjúkar?

„Ég held að þær séu kannski ekki öfundsjúkar. Það eru margar sem eru hraðar líka en það er bara gaman að heyra að þetta sé eitthvað sem fólk vill hafa. Það er margt sem ég myndi líka vilja taka frá þeim. Þetta er bara geggjað,“ sagði Sveindís létt í bragði, fyrir utan hótel landsliðsins í Sviss í dag.

Klippa: Sveindís vill nýta hraðann sinn

Sveindís segir að því fari fjarri að hún geti spólað í burtu frá hvaða leikmanni sem er:

„Alveg hundrað prósent. Það eru margar franskar sem eru mjög hraðar. En það er gott að geta nýtt þetta vel þegar það er hægt. Mér finnst þetta auðvitað mjög gott.“

„Nýt mín best þegar það er svæði til að hlaupa í“

Nú er bara spurning hvort hægt verði að nýta hraðann betur gegn Sviss á sunnudaginn, eftir 1-0 tapið gegn Finnlandi í fyrsta leik. Hvernig er best að gera það?

„Góð spurning. Ef það er mikið svæði fyrir aftan varnirnar þá vil ég auðvitað bara hlaupa í það og fá boltann í gegn. Við höfum líka verið duglegar í að finna réttu tímapunktana, þurfum kannski að vera betri í því, en ef að svæðið gefst er það auðvitað geggjað fyrir mig. Ég nýt mín best þegar það er svæði til að hlaupa í,“ sagði Sveindís.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×