Enski boltinn

Amorim sagði nei og Man. United missti af 1,6 milljörðum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ruben Amorim vildi ekki vera með myndavélar Amazon Prime á sér á bak við tjöldin.
Ruben Amorim vildi ekki vera með myndavélar Amazon Prime á sér á bak við tjöldin. Getty/Christopher Wong/

Manchester United glímir við mikil fjárhagsvandræði eins og hefur komið vel í ljós síðustu mánuði í gegnum fjölda uppsagna starfsmanna og sést á mjög hörðum niðurskurði í rekstrinum.

Þess vegna hefði komið sér vel að fá tíu milljónir punda inn í félagið eins og Amazon Prime var að bjóða.

The Athletic segir frá því að Amazon hafi boðið forráðamönnum félagsins tíu milljónir punda eða meira en 1,6 milljarð króna fyrir að taka þátt í heimildaþáttaröðinni „All or Nothing“.

Lið eins og Manchester City, Arsenal og Tottenham hafa öll verið með í þessum þóttum en samkvæmt heimildum Athletic þá fékk United hærra tilboð en þau þrjú fengu á sínum tíma.

Framkvæmdastjórinn Omar Berrada og eigendurnir í Ineos tóku vel í hugmyndina en þetta strandaði allt á einum manni.

Samkvæmt frétt Athletic þá þvertók Ruben Amorim, þjálfari liðsins, fyrir það að hleypa myndavélunum inn í klefa og inn á æfingar liðsins.

Sir Jim Ratcliffe, meðeigandi í United, lýsti því yfir í mars að Manchester United hefði getað farið á hausinn ef ekki væri tekið hart á rekstrinum. Síðan hefur félagið rekið um 450 starfsmenn.

Manchester United skuldar meira en sjö hundruð milljónir punda og Ineos er að reyna að taka til í rekstri félagsins.

Það er ekki vinsælt og því hefði komið sér vel að komast í meira en einn og hálfan milljarð þarna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×