Fótbolti

„Heimsku­leg spurning og dóna­leg“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Þorsteinn Halldórsson mun ekki íhuga framtíð sína í starfi landsliðsþjálfara fyrr en eftir EM.
Þorsteinn Halldórsson mun ekki íhuga framtíð sína í starfi landsliðsþjálfara fyrr en eftir EM. vísir / anton brink

Þorsteini Halldórssyni finnst skrítið að framtíð hans sem landsliðsþjálfari Íslands sé rædd á meðan Evrópumótið í Sviss stendur enn yfir og kallar það nautheimsku að spyrja leikmann liðsins út í stöðu hans í starfi.

„Ég er búinn að svara þessari spurningu núna undanfarið og er ekki að fara að svara henni núna daginn fyrir leik. Mér finnst þetta skrítin spurning,“ sagði Þorsteinn, aðspurður hvort hann hefði nánar íhugað framtíð sína í starfi, eftir að hafa tveimur dögum áður sagt að stöðufundur yrði haldinn eftir mót.

„Mér finnst líka skrítið, og ég ætla bara að segja það hreint út því ég er mjög hreinskilinn maður, mér finnst fáránlegt að spyrja leikmann að því eftir leik hvort hann vilji þjálfarann áfram eða ekki. Mér finnst það heimskuleg spurning og dónaleg gagnvart leikmanninum. Þið getið alveg spurt mig en að spyrja leikmann um þetta er bara, ég veit ekki alveg hvaða orð ég á að nota… bara nautheimska,“ sagði Þorsteinn og vísaði þar til viðtals Vísis við Alexöndru Jóhannsdóttur daginn eftir leik.

Stuttu síðar var Þorsteinn beðinn um að útskýra ummælin betur.

„Í fyrsta lagi þá stjórna leikmenn ekki því hver er þjálfari, það er alveg ljóst. Í öðru lagi þá eru leikir eftir og þú setur leikmann í óþægilega stöðu að vera að ræða þetta. Leikmaður hefur ekkert um þetta að segja. Leikmenn eru ekkert að spá í þetta á þessum tíma. Það er seinni tíma mál fyrir leikmenn að hafa skoðun á því. Þess vegna finnst mér tímapunkturinn alveg galinn,“ sagði Þorsteinn en umræðuna af blaðamannafundinum má finna hér fyrir neðan.

Klippa: Þorsteinn vill ekki ræða framtíðina



Fleiri fréttir

Sjá meira


×