Fótbolti

Ísak Snær lánaður til Lyngby

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Ísak mun spila í næstefstu deild Danmerkur á komandi tímabili.
Ísak mun spila í næstefstu deild Danmerkur á komandi tímabili. Lyngby Boldklub

Ísak Snær Þorvaldsson hefur verið lánaður til danska félagsins Lyngby frá norska félaginu Rosenborg og mun spila með liðinu í næstefstu deild Danmerkur út næsta tímabil. Kaupmöguleiki fylgir lánssamningnum.

Lyngby tilkynnti komu Ísaks á miðlum félagsins í morgun og sýndi hann í treyju númer tíu. 

Ísak hefur verið leikmaður Rosenborg síðan hann var seldur frá Breiðabliki sumarið 2023 en aðeins spilað 29 leiki fyrir félagið. Hann var lánaður til Breiðabliks í fyrra og átti stóran þátt í Íslandsmeistaratitlinum, sneri síðan aftur til Noregs en hefur á þessu tímabili aðeins spilað tæpar sjötíu mínútur í fimm leikjum fyrir Rosenborg.

Lyngby hefur verið mikið Íslendingafélag undanfarin ár. Freyr Alexandersson þjálfaði liðið við góðan árangur og hjá honum spiluðu meðal annars Sævar Atli Magnússon, Andri Lucas Guðjohnsen, Kolbeinn Finnsson, Alfreð Finnbogason og Gylfi Þór Sigurðsson.

Lyngby komst upp í úrvalsdeildina undir stjórn Freys en féll aftur niður á síðasta tímabili eftir að hann fór og tók við Brann í Noregi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×