Fótbolti

Segir að HM fé­lags­liða verði stærri en Meistaradeildin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Levi Colwill fagnar sigri Chelsea með heimsbikar félagsliða.
Levi Colwill fagnar sigri Chelsea með heimsbikar félagsliða. Getty/Michael Reaves

Levi Colwill og félagar í Chelsea urðu fyrstu meistararnir í hinni nýju heimsmeistarakeppni félagsliða eftir sannfærandi sigur á Paris Saint Germain í úrslitaleiknum.

32 liða heimsmeistarakeppni hefur verið umdeild enda eykur hún heldur betur álagið á bestu leikmenn heims.

FIFA hefur mikla trú á keppninni og setti mikinn pening í verðlaunaféð. Colwill hefur líka mikla trú á henni. Chelsea mun halda þessum titli í fjögur ár því næsta HM félagsliða fer ekki fram fyrr en árið 2029.

„Ég sagði það fyrir mótið að okkar plan væri að vinna þessa keppni og fólk horfði á mig eins og ég væri klikkaður,“ sagði Levi Colwill.

„Þannig að ég ætla að segja það sama um ensku úrvalsdeildina og Meistaradeildina á komandi tímabili,“ sagði Colwill.

„Þetta er stærsti bikar sem ég hef unnið á ferlinum. Ég held líka að heimsmeistarakeppni félagsliða verði stærri en Meistaradeildin og við vorum þeir fyrstu til að vinna hana,“ sagði Colwill.

„Þetta var yfirlýsing hjá okkur. Ef við höldum áfram að vinna titla í framtíðinni þá fara allir að gefa okkur þá ást sem við eigum skilið,“ sagði Colwill.

„Við erum gott lið og það er einkennismerki Chelsea. Við stöndum saman sama hvað gengur á. Ég held að leikmenn eins og John Terry, Frank Lampard og Didier Drogba hafi byrjað á þessu og við höldum áfram á þeirri braut,“ sagði Colwill.

„Þeir voru allir stórkostlegir leikmenn, bestu menn í sinni stöðu sem unnið mikið saman. Við erum með bestu leikmennina í okkar liði og unga leikmenn. Okkar plan er að vinna stærstu titlana fyrir Chelsea. Við höfum alla burði til þess að gera það og höfum líka sýnt það. Allir sögðu að PSG væri besta lið í heimi og við unnum þá 3-0,“ sagði Colwill.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×