Handbolti

Stelpurnar réðu ekki við þær serbnesku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenska nítján ára landsliðið er þegar búið að tryggja sig inn á næsta heimsmeistaramót.
Íslenska nítján ára landsliðið er þegar búið að tryggja sig inn á næsta heimsmeistaramót. @hsi_iceland

Íslenska nítján ára landslið kvenna í handbolta missti af tækifærinu til að spila um níunda sætið á Evrópumóti U19 eftir fimm marka tap á móti Serbíu í dag.

Serbarnir unnu leikinn 29-24 og spila um níunda sætið á mótinu. Íslensku stelpurnar spila í staðinn um þrettánda sætið. Þetta var fyrsta umferð í baráttunni um níunda til sextánda sætið á mótinu.

Góður sigur í leiknum á undan hafði tryggt íslenska liðinu þátttökurétt á næsta heimsmeistaramóti sem fer fram næsta sumar.

Íslensku stelpurnar voru þremur mörkum undir í hálfleik, 14-11, og Serbarnir bættu við forystu sína í seinni hálfleiknum sem þær unnu 15-13.

Ásthildur Jóna Þórhallsdóttir náði ekki alveg að fylgja á eftir átján marka leik sínum á móti Norður Makedóníu og klikkaði á þremur af fjórum skotum sínum í fyrri hálfleiknum.

Ásthildur náði skrekknum úr sér í hálfleik og skoraði fjögur mörk í seinni hálfleiknum og þar með fimm mörk samtals.

Ásthildur varð markahæst ásamt Dagmar Guðrúnu Pálsdóttur sem skoruðu báðar fimm mörk. Emelía Ósk Aðalsteinsdóttir og Bergrós Ásta Guðmundsdóttir voru með þrjú mörk hvor.

Íslenska liðið hefur þar með unnið tvo leiki og tapað fjórum á mótinu til þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×